Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra

05. desember 2025

„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.

Viktoria Weinikke er frá Úkraínu en býr nú í Reykjavík og kemur að margvíslegum sjálfboðaliðastörfum fyrir Rauða krossinn, Mynd: Golli

Í sama mánuði og Viktoria Weinikke kom til Íslands í byrjun árs 2024 skráði hún sig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum. Hún er frá Úkraínu en hafði dvalið í Póllandi um hríð og kynnst sjálfboðastörfum þar. „Þess vegna vissi ég hversu mikilvæg slík störf eru,“ segir hún. „Að hjálpa öðrum var þegar orðið hluti af lífi mínu í Póllandi svo það var bæði eðlilegt og mikilvægt fyrir mig að halda því áfram á Íslandi.“

Í dag býr Viktoria í Reykjavík og kemur að margvíslegum sjálfboðaliðastörfum fyrir Rauða krossinn, m.a. í tengslum við verkefni sem kallast InterACT. Sjálfboðaliðar í verkefninu eiga það sameiginlegt að hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Unnið er á ýmsum sviðum í samvinnu við fyrirtæki, stofnanir og samtök með það að markmiði að auka virkni fólks og kynna það fyrir íslensku samfélagi.

Viktoria hefur tekið meira en 50 netnámskeið af ýmsum toga hjá Rauða krossinum frá því að hún kom til Íslands. Mynd: Golli

Fólk sem hingað flýr og hefur hlotið alþjóðlega vernd hefur margvíslega hæfni, þekkingu, reynslu og getu sem það langar oft að nýta. Það á vissulega við um Viktoriu. „Ég hef aflað mér alls konar menntunar og hef starfað að markaðsmálum og við ráðgjöf en einnig við stjórnun og rekstur eigin fyrirtækja. Ég tel að þessi víðtæka reynsla hjálpi mér að styðja við fólk í ólíkum aðstæðum.“

Kynntu þér sjálfboðaliðastörf Rauða krossins

Til að auka enn frekar við þekkingu sína hefur Viktoria tekið meira en 50 netnámskeið af ýmsum toga frá Rauða krossinum frá því að hún kom til Íslands. Hún er staðráðin í því að halda áfram að gefa af sér. Tölvunámskeið fyrir innflytjendur á ýmsum tungumálum, stuðningur við fólk sem hefur nýlokið afplánun og verkefni er tengjast skaðaminnkun eru meðal þeirra sjálfboðastarfa sem Viktoria sinnir. „Hlutverk mitt er að leiðbeina, styðja og hjálpa fólki að takast á við aðstæður sínar af yfirvegun og reisn.“

Virðing og hlýja

Viktoria segir að það hafi komið sér á óvart hversu mikið athafnir sem kannski virðast smávægilegar, svo sem nærvera, geta þýtt fyrir fólk sem á erfitt. „Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir hún. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“

Hún mælir hiklaust með því að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Sjálfboðaliðastarf tengir þig við magnað fólk og sýnir hvernig hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra.“

Með stuðningi, hlýju og virðingu, sem séu grundvallarstef í öllu starfi Rauða krossins, sé hægt að skapa öruggt rými þar sem fólki finnst það metið að verðleikum. „Þetta er alltaf nauðsynlegt að hafa í huga þegar unnið er með fólki í viðkvæmri stöðu og þess vegna skptir þetta starf mig svo miklu máli.“

Ert þú með samtök, stofnun eða fyrirtæki sem vill taka þátt í InterACT? Í gegnum þetta verkefni er hægt að skapa tengsl við fólk með stöðu flóttafólks sem gerir þeim kleift að kynnast þér, markmiðum þínum og um leið Íslandi sjálfu. Hafðu samband í gegnum interact@redcross.is.