Innanlandsstarf
Leikurinn \"Upplifun flóttamannsins\" í Kársnesskóla
31. janúar 2019
Í mánuðinum tók Rauði krossinn í Kópavogi þátt í þemadögum í Kársnesskóla. Þemað að þessu sinni var flóttamaðurinn og heimsóttu verkefnastjórar hjá Rauða krossinum í Kópavogi nemendur í 9. bekk til að fara með þeim í leikinn “Upplifun flóttamannsins”.
Í mánuðinum tók Rauði krossinn í Kópavogi þátt í þemadögum í Kársnesskóla. Þemað að þessu sinni var flóttamaðurinn og heimsóttu verkefnastjórar hjá Rauða krossinum í Kópavogi nemendur í 9. bekk til að fara með þeim í leikinn “Upplifun flóttamannsins” en leikurinn er hluti af mannúðarfræðslu Rauða krossins. Fjöldi nemenda tóku þátt í leiknum eða um 60 nemendur. Þar sem hópurinn var svo stór var ákveðið að skipta hópnum í þrennt og verkefnastjórar heimsóttu því skólann þrisvar sinnum í mánuðinum til að hitta hvern hóp fyrir sig.
Markmið leiksins er að auka þekkingu ungs fólks á aðstæðum flóttafólks. Í leiknum fara nemendur í hlutverk flóttafólks og þurfa að fara yfir stríðsvæði þar sem leynist fjöldi jarðsprengja. Þátttakendur velja fjóra hluti eða einstaklinga sem eru þeim kærir til að taka með sér. Ferðin er þó ekki hættulaus því ef rekist er á jarðsprengju þá missir viðkomandi einn af þeim hlutum eða einstaklingum sem valdir voru. Að því loknu fara hóparnir í umræðu með leiðbeinanda og ræða upplifanir sínar og það varnarleysi sem fólgið er í að vera á flótta og að missa það sem er þeim kærast. Í þessum umræðum leggja leiðbeinendur sérstaka áherslu á alþjóðleg mannúðarlög sem eru lög sem gilda í stríði.
Mikil hópasamvinna felst í leiknum og þurftu krakkarnir að vinna náið saman til þess að koma hópnum yfir jarðsprengjusvæðið. Mikið keppnisskap einkenndi hópinn sem gerði leikinn mjög fjörugan og spennandi og sýndu margir nemendur leiðtogahæfileika sína í leiknum. Umræður voru áhugaverðar og líflegar og flestir sýndu málefninu mikinn áhuga. Hóparnir fengu einnig að spreyta sig á grunnnámskeiði Rauða krossins en það er vefnámskeið sem allir sjálfboðaliðar Rauða krossins þurfa að taka áður en þeir hefja störf sem sjálfboðaliðar.
Rauði krossinn í Kópavogi þakkar Kársnesskóla kærlega fyrir að bjóða þeim að taka þátt á þemadögum og fyrir góðar ábendingar sem voru fengnar frá nemendum varðandi umbætur á leiknum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.