Innanlandsstarf
„Maður gefur af sér en fær svo mikið til baka“
05. ágúst 2025
Notendur Frú Ragnheiðar tóku Írisi Ósk Ólafsdóttur strax vel er hún hóf þar sjálfboðaliðastörf. „Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli,“ segir Íris.

„Þegar ég fór á mína fyrstu vakt í Frú Ragnheiði velti ég því mikið fyrir mér hver viðbrögð notenda yrðu gagnvart mér sem nýjum sjálfboðaliða,“ segir Íris Ósk Ólafsdóttir sem hefur verið sjálfboðaliði í hinni færanlegu skaðaminnkandi þjónustu Rauða krossins frá því í fyrra. „Það sem kom mér á óvart er hversu vel þeir einstaklingar sem leituðu í bílinn tóku mér þrátt fyrir að vera að hitta mig í fyrsta sinn. Ég tel það vera vegna þess að notendur þjónustunnar bera mikið traust til Frú Ragnheiðar.“
Félagsráðgjafinn Íris Ósk er í hópi um 2.300 sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi. Tugi sjálfboðaliða þarf á hverjum tíma til að reka Frú Ragnheiði og er Íris í þeirra hópi. Þjónustan er veitt á þremur stöðum á landinu; á Akureyri, Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu og það er þar sem Íris starfar.

Frú Ragnheiður byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna, útskýrir Íris. Frú Ragnheiður er vettvangsþjónusta og fer starfsemin fram í sérinnréttuðum bíl sem veitir skaðaminnkandi heilbrigðisþjónustu og sálfélagslega aðstoð til jaðarsettra einstaklinga í þeirra nærumhverfi. Markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða, auk þess að auka lífsgæði einstaklinga sem nota vímuefni í æð.
„Mín vinna sem sjálfboðaliði felst fyrst og fremst í því að veita nálaskiptaþjónustu og að veita skaðaminnkandi samtal og fræðslu,“ segir Íris. Það felur meðal annars í sér að veita fólki leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun og forvarnir gegn ofskömmtun, t.d. að dreifa Naloxone, bráðalyfi við ofskömmtun á ópíóðum, að bjóða upp á einföld vímuefnapróf, sem gerir notendum kleift að athuga hvort vímuefni séu menguð með öðrum hættulegum efnum, og að hjálpa notendum að finna æðar með æðaskanna til þess að lágmarka sýkingarhættu. Vinnan felst að sögn Írisar einnig í að veita lágþröskulda heilbrigðisþjónustu.
Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur ásamt lækni á bakvakt. „Skaðaminnkandi heilbrigðisþjónusta felur meðal annars í sér aðhlynningu sára og sýklalyfjameðferð,“ segir Íris. „Á vakt er einnig boðið er upp á næringu sem nær allir notendur þjónustunnar þiggja enda búa þau jafnan við fátækt og eru því yfirleitt svöng og þyrst þegar þau leita í bílinn. Mjög stór þáttur í þessu verkefni er að veita sálrænan stuðning því oftar en ekki snýst þjónustan líka um að veita virka hlustun, að mæta fólki þar sem það er statt og sýna því virðingu, umhyggju og samkennd. Við reynum að tengjast einstaklingunum og veita ráðgjöf og aðstoða þau við að kynna sér þau úrræði sem kerfið býður upp á sem þeir eiga rétt á þjónustu frá.“

Íris starfar í dag á meðferðareiningu fíkni- og geðsjúkdóma á Landspítalanum. Áður starfaði hún sem teymisstjóri á Neyðarskýlinu á Granda. „Eftir að ég hætti þar vildi ég halda áfram að leggja mitt af mörkum við að bæta þjónustuna fyrir þennan hóp enda hef ég mikinn áhuga á skaðaminnkun og skaðaminnkandi hugmyndafræði.“ Þess vegna sótti hún um að gerast sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði.
Starfsreynsla hennar gerði það að verkum að hún þurfti lítinn undirbúning áður en hún hóf sjálfboðaliðastarfið. Hún hafði til dæmis farið á þau námskeið Rauða krossins sem sjálfboðaliðar fara almennt á áður en þeir hefja störf, s.s. námskeið um skaðaminnkandi hugmyndafræði og í sálrænum stuðningi. „Ég fór á mína fyrstu vakt í Frúnni með tveimur reynsluboltum sem leiddu mig í gegnum vaktina og það gekk mjög vel.“
Stuðningur af teyminu
Það getur vissulega reynt á, bæði andlega og tilfinningalega, að vinna hjá Frú Ragnheiði. „Við hittum einstaklinga sem glíma við margþættan vanda sem oft búa við mikinn óstöðugleika,“ segir hún. „Stundum kemur eitthvað upp á vaktinni sem situr í manni eða maður hittir einstakling sem maður hefur áhyggjur af. Það getur vissilega tekið á að vera hluti af einhverju sem maður veit að er mikilvægt en samt finnst manni stundum eins og maður sé ekki að gera nóg. En á sama tíma þá hjálpar það að vera í teymi þar sem við styðjum hvert annað. Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli.“
Íris segir sjálfboðaliðastörfin hafa gefið sér margt. „Ég hef öðlast dýpri skilning á skaðaminnkun og hvað það þýðir að mæta fólki án fordóma. Ég hef lært að hlusta betur, að vera til staðar án þess að þurfa að laga allt og að það eitt að mæta fólki af virðingu og hlýju getur haft gífurleg áhrif. Það er kannski það fallegasta við þetta starf – maður gefur af sér, en fær svo mikið til baka, oft án þess að taka sérstaklega eftir því þá og þegar.“
Hún segist „algjörlega“ mæla með því að fólk gerist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það er fátt jafn gefandi og að gefa tíma sinn í þágu annarra. Sjálfboðastörfin gefa manni ekki bara innsýn í samfélagið og stöðuna hjá fólki sem maður annars myndi kannski aldrei kynnast, heldur líka meiri skilning á sjálfum sér. Verkefnin hjá Rauða krossinum eru fjölbreytt og allir geta fundið eitthvað sem hentar. Það er ekki bara gott fyrir samfélagið heldur líka fyrir mann sjálfan.“
Hér getur þú kynnt þér verkefni Rauða krossins, séð í hver þeirra vantar nú sjálfboðaliða og sótt um að gerast sjálfboðaliði.

Vissir þú að ...
það er ólíkt milli verkefna hversu mikinn tíma sjálfboðaliðar eru beðnir um að leggja fram og í hve lengi þeir þurfa að skuldbinda sig?
Í sumum verkefnum verja sjálfboðaliðar einni klukkustund vikulega en í öðrum t.d. 3 klukkustundum tvisvar í mánuði. Stundum eru sjálfboðaliðar beðnir um að skuldbinda sig til 6 eða 12 mánaða en oft mun skemmur.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.