Innanlandsstarf
Neyðarsöfnun fyrir Grindvíkinga lokið
12. mars 2024
Rauði krossinn hefur lokið neyðarsöfnuninni fyrir íbúa Grindavíkur. Hægt er að sækja um fjárstuðning til 19. mars og síðasta úthlutun úr söfnuninni fer fram þann 20. mars. Alls hefur rúmlega 51 milljón kr. safnast.

Í dag lauk neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi fyrir íbúa Grindavíkur. Alls hafa safnast 51.539.096 kr. og 47.171.230 kr. hefur verið úthlutað til Grindvíkinga í 542 styrkjum. Hægt er að sækja um fjárstuðning til og með 19. mars, en 20. mars fer svo síðasta úthlutunin fram og þá verður farið yfir síðustu umsóknirnar og afgangnum af fénu komið til Grindvíkinga.
Hægt er að sækja um fjárstuðning í gegnum þjónustumiðstöðvar fyrir Grindvíkinga. Þjónustumiðstöð er staðsett í Tollhúsinu, Tryggvagötu 19 í Reykjavík, opið virka daga milli klukkan 10-16 og í Reykjanesbæ á Smiðjuvöllum 8. Þar er opið á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum milli 14-17.
Ef fólk er í bráðum fjárhagsvanda hvetjum við það til að bóka viðtal hjá félagsráðgjöfum Grindavíkurbæjar í síma 4201100.
Rauði krossinn þakkar kærlega fyrir þær gríðarlega öflugu viðtökur sem þessi söfnun fékk. Félagið heldur svo áfram að standa þétt við bakið á Grindvíkingum þrátt fyrir að neyðarsöfnuninni sé lokið með rekstri þjónustumiðstöðva og annarri aðstoð.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.

Ylja er „eins og gott knús“
Innanlandsstarf 06. maí 2025Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.

Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
Alþjóðastarf 02. maí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.