Innanlandsstarf
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
08. október 2025
Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.
Margir Grindvíkingar hafa upplifað óöryggi og langvarandi óvissu í kjölfar náttúruhamfaranna og brottflutnings úr heimabyggð. Slíkar aðstæður geta haft djúpstæð áhrif á andlega líðan. Til að mæta þessum áskorunum býður Rauði krossinn á Íslandi nú upp á markvisst og hagnýtt fjarnámskeið í HAM (hugrænni atferlismeðferð) sem er sérstaklega ætlað Grindvíkingum. Námskeiðið mun gagnast öllum þeim sem vilja byggja upp styrk og sjálfstraust og fá verkfæri til að bæta líðan og takast á við daglegt líf af festu og ró.
Námskeiðið er unnið í samstarfi við Framvegis – símenntunarstöð og með styrk frá fyrirtækinu Rio Tinto. Það stendur í 8 vikur. Fyrsti tíminn verður 15. október og er skráning þegar hafin. Kennt er vikulega og í gegnum Teams.
Markmið námskeiðsins er að styrkja einstaklinga til að takast á við kvíða, streitu, depurð og aðra vanlíðan, en jafnframt að efla daglega seiglu og getu til að leysa úr áskorunum hversdagsins. Þátttakendur læra að beita hagnýtum aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar til að auka meðvitund um tengsl hugsana, tilfinninga og hegðunar og rjúfa vítahring neikvæðrar líðanar. Á námskeiðinu eru veitt verkfæri sem nýtast í samskiptum, vinnu, fjölskyldulífi og daglegum verkefnum – jafnvel þegar líðan er almennt góð.
Hagnýtt, aðgengilegt og rafrænt
Námskeiðið verður í formi fyrirlestra, umræðna, verkefnavinnu og heimanáms. Það byggir á HAM-handbók Reykjalundar, sem var þróuð í samvinnu við reynda sálfræðinga.
„Við höfum séð að fólk sem lærir að nýta sér einföld en áhrifarík verkfæri HAM nær oft meiri ró og stjórn á eigin líðan – jafnvel í miðjum óvissutímum,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri Viðnámsþróttar Suðurnesja hjá Rauða krossinum. „Þetta námskeið snýst ekki aðeins um að vinna úr kvíða eða streitu, heldur um að styrkja innri getu fólks til að finna jafnvægi og þol gagnvart daglegum áskorunum.“
Ingibjörg Kristinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Framvegis, tekur undir mikilvægi námskeiðsins. „HAM-aðferðir geta kennt þér að sjá að þú hefur miklu meiri stjórn á eigin líðan en þú hélst. Með litlum breytingum á hugsun má ná betri líðan og bættri lífsstefnu.“
Jasmina segir þetta ekki „bara“ námskeið heldur „skref í átt að sjálfstyrkingu og auknu jafnvægi í daglegu lífi“. Hún hvetur alla Grindvíkinga til að nýta sér úrræðið sem hluta af persónulegri uppbyggingu eftir erfiðan tíma og miklar breytingar.
Viðnámsþróttur Grindvíkinga er verkefni á vegum Rauða krossins og með stuðningi Rio Tinto sem miðar að því að efla seiglu fólks. Margvísleg námskeið, vinnustofur, viðburðir og fleira standa Grindvíkingum til boða í tengslum við verkefnið. Þegar hafa verið kynnt til sögunnar námskeið hjá KVAN og Litlu kvíðameðferðastöðinni og er hið rafræna HAM-námskeið enn ein viðbótin.
Hér getur þú skoðað námskeiðin hjá KVAN
Hér getur þú kynnt þér námskeið Litlu kvíðameðferðarstöðvarinnar
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.