Innanlandsstarf

Um 50 börn fá styrki úr Tómstundasjóði Rauða krossins

21. maí 2025

„Tómstundir auka vellíðan barna, svo einfalt er það,“ segir Nína Helgadóttir, sérfræðingur hjá Rauða krossinum sem heldur utan um tómstundasjóð félagsins. Velferðarsjóður barna hefur veitt tómstundasjóðnum veglegan styrk.

Tómstundir styrkja vinabönd milli barna.

Velferðarsjóður barna hefur styrkt Tómstundasjóð Rauða krossins á Íslandi um tvær milljónir króna. Um 50 börn sem hingað hafa flúið munu njóta góðs af styrknum, töluvert fleiri en undanfarin ár. Félagið þakkar þennan veglega stuðning.

Tómstundasjóður Rauða krossins hefur verið starfræktur frá árinu 2016 í þeim tilgangi að styðja við tómstundir barna á flótta fyrstu árin sem þau dvelja hér. Styrkurinn, sem hefur frá upphafi verið 30 þúsund á hvert barn á ári, er viðbót við frístundastyrki sveitarfélaga.

Velferðarsjóður barna var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Allt stofnfjármagn sjóðsins, rúmur hálfur milljarður, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, meðal annars, með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála.

„Tómstundir auka vellíðan barna, svo einfalt er það,“ segir Nína Helgadóttir, sérfræðingur hjá Rauða krossinum, sem heldur utan um Tómstundasjóðinn. „Þær auka virkni og vinatengsl og stuðla að inngildingu þeirra í íslenskt samfélag.“

Með þátttöku í tómstundastarfi eykst enn fremur færni barnanna í tungumálinu. „Það getur gert gæfumuninn fyrir barn sem er að koma úr erfiðum aðstæðum að vera þátttakandi til jafns við önnur börn í tómstundastarfi,“ segir Nína.

Fjölskyldur sem sækja um styrki í sjóðinn eiga það flestar sameiginlegt að borga háa húsaleigu, hafa lítið bakland og oft er fyrirvinnan aðeins ein.

Vinátta og hreysti

Styrkir úr Tómstundasjóði Rauða krossins hafa til dæmis gert börnum kleift að æfa íþróttir sem þau hefðu annars ekki haft tök á að leggja stund á. Þannig er því meðal annars farið með þrjú börn úr sömu fjölskyldunni sem flúði hingað til lands frá Afganistan fyrir nokkrum árum. Börnin æfa fimleika og fótbolta sem foreldrarnir segja ekki hafa verið mögulegt án styrkja úr Tómstundasjóðnum.

Móðir sem hingað flúði með son sinn frá ríki í austanverðri Afríku segir skipta miklu að geta leyft honum að æfa fótbolta, íþrótt sem hann elskar. Hann hefur í gegnum fótboltann eignast góða vini og náð betri tökum á íslensku.

Önnur fjölskylda frá Afríku, sem líkt og hinar tvær býr hér á landi við kröpp kjör, er mjög þakklát fyrir Tómstundasjóðinn sem hafi gert fjórum drengjum kleift að æfa íþróttir. Miklu skiptir, segir móðir þeirra, að drengirnir hennar geti stundað íþróttir sem ekki aðeins veiti þeim mikla ánægju heldur bæti heilsu þeirra – jafnt andlega sem líkamlega.

„Allar tilfinningar og áföll eru fastar í líkamanum,“ segir móðir frá Úkraínu sem hingað flúði fyrir þremur árum með þrjú börn sín. Þau hafa öll getað tekið þátt í tómstundum vegna styrkja úr Tómstundasjóðnum. „Þegar maður stundar hreyfingu nær maður að fá útrás,“ segir móðir þeirra um mikilvægi tómstundaiðkunar.

Hér er hægt að sækja um styrk úr tómstundasjóðnum. Úthlutunarreglur má nálgast á arabísku, ensku, farsísku, kúrdísku, spænsku auk íslensku.