Innanlandsstarf
Vertu klár á táknmáli
09. maí 2025
Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Hvernig segir þú ertu klár á táknmáli? En viðlagakassi? Hvað með setninguna: Það er eitthvað að klósettinu?
Allar auglýsingar í átaksverkefni Rauða krossins, 3dagar.is, þar sem landsmenn eru hvattir til að undirbúa sig fyrir hvers kyns neyðarástand, er nú líka hægt að nálgast á táknmáli á Youtube-rás félagsins. Túlkar á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra fara á kostum við að koma samskiptum unga parsins, Danna og Anítu, sem best til skila. Allar auglýsingarnar eru einnig með texta.
Danni og Aníta hafa aldrei upplifað annað eins. Að rafmagnið fari. Að það sé orðið vatnslaust. Að farsíminn virki ekki og kreditkortin ekki heldur. Þá eru góð ráð dýr. Nema að þú sért vel undirbúin/n. Og það er einmitt markmið vitundarvakningar Rauða krossins.
Átakið 3dagar.is hefur sannarlega náð augum og eyrum fólks. Það miðar að því að hvetja landsmenn til að huga að undirbúningi ef neyðarástand skyldi skapast. Neyðarástand getur skapast af ýmsum ástæðum og oft með stuttum eða engum fyrirvara. „Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hvert og eitt okkar geti bjargað sér í einhverja daga án utanaðkomandi hjálpar,“ sagði Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, er átakinu var ýtt úr vör í apríl.
Markmiðið er að landsmenn búi sig undir að vera án rafmagns og vatns í að minnsta kosti þrjá daga og verði sömuleiðis viðbúnir því að vera án net- og símasambands. Slíkt getur hent tímabundið líkt og nýleg dæmi frá Spáni og Portúgal sýna.
„Að geta bjargað okkur í einhverja daga auðveldar ekki aðeins okkur sjálfum að takast á við erfiða stöðu heldur léttir álagið á viðbragðsaðilum sem geta þá sinnt þeim sem eru verr staddir,“ sagði Aðalheiður. „Góður undirbúningur skapar seiglu á hættustundu og getur jafnvel bjargað mannslífum.“
Kynntu þér málið betur á 3.dagar.is
Youtube-rás Rauða krossins þar sem allar auglýsingarnar er að finna.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.