Innanlandsstarf
Vertu klár á táknmáli
09. maí 2025
Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Hvernig segir þú ertu klár á táknmáli? En viðlagakassi? Hvað með setninguna: Það er eitthvað að klósettinu?
Allar auglýsingar í átaksverkefni Rauða krossins, 3dagar.is, þar sem landsmenn eru hvattir til að undirbúa sig fyrir hvers kyns neyðarástand, er nú líka hægt að nálgast á táknmáli á Youtube-rás félagsins. Túlkar á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra fara á kostum við að koma samskiptum unga parsins, Danna og Anítu, sem best til skila. Allar auglýsingarnar eru einnig með texta.
Danni og Aníta hafa aldrei upplifað annað eins. Að rafmagnið fari. Að það sé orðið vatnslaust. Að farsíminn virki ekki og kreditkortin ekki heldur. Þá eru góð ráð dýr. Nema að þú sért vel undirbúin/n. Og það er einmitt markmið vitundarvakningar Rauða krossins.
Átakið 3dagar.is hefur sannarlega náð augum og eyrum fólks. Það miðar að því að hvetja landsmenn til að huga að undirbúningi ef neyðarástand skyldi skapast. Neyðarástand getur skapast af ýmsum ástæðum og oft með stuttum eða engum fyrirvara. „Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hvert og eitt okkar geti bjargað sér í einhverja daga án utanaðkomandi hjálpar,“ sagði Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, er átakinu var ýtt úr vör í apríl.
Markmiðið er að landsmenn búi sig undir að vera án rafmagns og vatns í að minnsta kosti þrjá daga og verði sömuleiðis viðbúnir því að vera án net- og símasambands. Slíkt getur hent tímabundið líkt og nýleg dæmi frá Spáni og Portúgal sýna.
„Að geta bjargað okkur í einhverja daga auðveldar ekki aðeins okkur sjálfum að takast á við erfiða stöðu heldur léttir álagið á viðbragðsaðilum sem geta þá sinnt þeim sem eru verr staddir,“ sagði Aðalheiður. „Góður undirbúningur skapar seiglu á hættustundu og getur jafnvel bjargað mannslífum.“
Kynntu þér málið betur á 3.dagar.is
Youtube-rás Rauða krossins þar sem allar auglýsingarnar er að finna.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.

Ylja er „eins og gott knús“
Innanlandsstarf 06. maí 2025Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.

Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
Alþjóðastarf 02. maí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.