Almennar fréttir
40 milljónir til Afganistan
28. september 2021
Neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir stríðshrjáða í Afganistan lauk í dag. Í kjölfar þessarar söfnunar mun Rauði krossinn á Íslandi senda alls um 40 milljónir króna til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem sinnir lífsbjargandi mannúðaraðstoð í Afganistan og hefur gert um langt skeið.
Neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir stríðshrjáða í Afganistan lauk í dag. „Við erum ljómandi ánægð með þann stuðning sem neyðarsöfnunin hefur fengið og ljóst að landsmenn sýna Afgönum og aðstæðum þeirra mikinn skilning. Það höfum við fundið svo skýrt“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins.
Í kjölfar þessarar söfnunar mun Rauði krossinn á Íslandi senda alls um 40 milljónir króna til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem sinnir lífsbjargandi mannúðaraðstoð í Afganistan og hefur gert um langt skeið. Íslensk stjórnvöld styðja líka myndarlega starf Rauða krossins í Afganistan, þar sem þau hafa þegar styrkt alþjóðaráð Rauða krossins um 30 milljónir króna. Sjö milljónir hafa safnast frá almenningi og deildum Rauða krossins og tæpar þrjár milljónir verða nýttar af rammasamningi Rauða krossins við utanríkisráðuneytið. Áhersla verður lögð á heilbrigðisaðstoð sem og að auka fæðuöryggi í landi þar sem miklir þurrkar hafa geysað og aðgengi að matvælum oft takmarkað, mjög lítið eða nánast ekkert.
Fjármagnið frá Íslandi verður nýtt í mjög aðkallandi aðstoð fyrir íbúa í Afganistan og hægt verður að veita þúsundum Afgana, ef ekki tugþúsundum aðstoð. „Það sýnir okkur svo skýrt að framlag hvers og eins telur og að samtakamáttur okkar hér á Íslandi getur sannarlega haft lífsbjargandi áhrif í fjarlægum löndum eins og núna í Afganistan“, segir Atli að lokum og þakkar landsmönnum, stjórnvöldum og deildum Rauða krossins innilega fyrir stuðninginn við stríðshrjáða í Afganistan.
Síðast en ekki síst þakkar Rauði krossinn einnig Mannvinum sem gera okkur kleift að bregðast við og halda uppi hjálparstarfi um allan heim á neyðarstundum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.