Almennar fréttir
Aðstæður flóttafólks í Grikklandi
25. maí 2022
Í mörg ár hafa talsmenn Rauða krossins gagnrýnt endursendingar flóttafólks til Grikklands og skilað ítarlegum skýrslum um bágborið ástand, örbrigð og vonleysi fyrir flóttafólk þar í landi. Fjölda heimilda ber saman um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu heilt yfir mjög slæmar. Verði einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi sendir þangað aftur munu þau að öllum líkindum eiga erfitt uppdráttar þar í landi vegna alvarlegrar mismununar, m.a. á grundvelli trúar og kynþáttar, auk þess sem vænta má að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings.
Af þeim heimildum sem Rauði krossinn hefur tekið saman er ljóst að aðstæður flóttafólks í Grikklandi eru með öllu ófullnægjandi. Í orði tryggja grísk lög flóttafólki margvísleg réttindi til húsnæðis, félagsþjónustu, atvinnu, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. en heimildum ber saman um að verulega skorti á að lögum sé fylgt í framkvæmd og að fólk fái í raun notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð á í lögum. Verulegir kynþáttafordómar leiða til þess að verulega erfitt er fyrir flóttafólk að verða sér úti um atvinnu og húsnæði í Grikklandi sem verður til þess að einstaklingar jafnt sem barnafjölskyldur þurfa að hafast við á götunni án aðstoðar frá yfirvöldum.
Þá er ljóst af þeim lestri opinberra skýrslna að flóttabörn í Grikklandi standa frammi fyrir alvarlegum vandamálum í menntakerfi landsins en einungis þriðjungur flóttabarna hafði fengið einhvers konar skólavist fyrir tíma heimsfaraldursins. Ljóst er að börn á flótta hafa ekki aðgengi að þeirri menntun sem grísk lög kveða á um, auk þess sem flóttabörn hafa verið aðskilin frá öðrum grískum börnum og fjöldi menningarlegra hindrana hafa mætt þeim í skólakerfinu. Þann 13. apríl 2021 kom út skýrsla Refugee Support Aegan (RSA) þar sem staðfest var að börn með alþjóðlega vernd hafi ekki sama aðgengi að menntun og grísk börn.
Það er ekki í samræmi við bestu hagsmuni barna að vera send til Grikklands þar sem móttökukerfi útlendingayfirvalda er undir verulegu álagi, fjölskyldum stendur ekki félagsleg aðstoð til boða, þ.e. ekki fjárhagsleg aðstoð, barnabætur, húsnæði eða félagslegur stuðningur og takmarkanir eru á aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu og menntun.
Endursending flóttabarna til Grikklands, þar sem þau munu þurfa að hafast við á götunni, þjónar að mati Rauða krossins ekki hagsmunum þeirra, því þar bíður þeirra fátt annað en öryggisleysi og óvissa og heilsu þeirra og velferð er stefnt í mikla hættu. Umhverfi barna, aðstæður og upplifanir í gegnum lífið er eitthvað sem mótar einstaklinga og hefur áhrif á þau til æviloka.
Þá er að finna fjölda heimilda um daglega baráttu flóttafólks í Grikklandi við rasísk viðhorf, andúð og hatursglæpi í sinn garð.
Ljóst er við lestur fjölda áreiðanlegra heimilda og skýrslna að flóttafólk stendur ekki jafnfætis grískum ríkisborgunum.
Meðfylgjandi er uppfærð skýrsla unnin af Rauða krossinum um aðstæður í Grikklandi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 03. nóvember 2025Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.