Almennar fréttir
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða
05. desember 2018
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða er í dag, 5. desember. Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem bjóða fram aðstoð sína og gera starf félagsins mögulegt.
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða er í dag, 5. desember. Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem bjóða fram aðstoð sína og gera starf félagsins mögulegt. Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnarmaður Rauða krossins, skrifaði að þessu tilefni grein í Fréttablaðið sem birtist í dag til að koma áleiðis þökkum til allra sjálfboðaliða landsins fyrir hönd félagsins.
Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri, fólk í námi, starfi og á eftirlaunaaldri. Íbúar í minni bæjarfélögum taka oft þátt í fleiri en einu sjálfboðaliðaverkefni en á höfuðborgarsvæðinu koma flestir að einu verkefni Rauða krossins. Það eru ólíkar ástæður fyrir því að fólk vinnur störf í sjálfboðavinnu, en íslenskar rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst að viljinn til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins, vinna að verðugu málefni og hjálpa þeim sem minna mega sín sem hvetur fólk að bjóða krafta sína í sjálfboðin störf.
Hjá Rauða krossinum starfa rúmlega þrjú þúsund sjálfboðaliðar við um fjögur þúsund stöðugildi í mörgum mismunandi verkefnum. Eins og fram kom í grein Silju Báru eru verkefnin mörg og mismunandi. Sum eru vel þekkt, eins og Frú Ragnheiður og Konukot. Önnur eru minna þekkt en engu minna mikilvæg eins og aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd, að kenna nýjum íbúum landsins íslensku, kvennadeildir prjóna fyrir ungabörn, margir sem flokka og selja föt sem annars færu í ruslið og sérþjálfaðir heimsóknarvinir sem sporna gegn félagslegri einangrun. Öll taka verkefnin mið af þörfum samfélagsins en þess utan hefur Rauði krossinn lögbundið hlutverk í neyðarvörnum og útvegar sjálfboðaliða til að veita fjöldahjálp og félagslega aðstoð í kjölfar neyðarástands. Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni Rauða krossins á Íslandi væri íslenskt samfélag veikara og fátækara. Rauði krossinn á Íslandi vill hvetja alla landsmenn til að líta í kringum sig í dag og þakka þeim sem þetta gera.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.