Almennar fréttir
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
05. nóvember 2025
„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
„Rauði krossinn hefur staðið með Íslendingum í 100 ár og það var einstakt að fá að taka þátt í að fagna þessum tímamótum,“ segir Snorri Eldjárn Snorrason, hönnunarstjóri og einn stofnenda Strik Studio sem bjó til auglýsingu um aldarafmæli Rauða krossins á síðasta ári sem hefur nú verið tilnefnd til verðlauna á hinni virtu, evrópsku hönnunarhátíð, ADC’E. Auglýsingin er tilnefnd í flokki hönnunar kvikrar grafíkur (e. Design motion graphics) og til gamans má geta þess að keppt er við ekki minni fyrirtæki en Microsoft.
Auglýsingin sem Strik gerði er falleg teiknimynd þar sem farið er yfir helstu verkefni Rauða krossins á Íslandi allt frá stofnun árið 1924. Snorri segir það hafa verið forréttindi að vinna fyrir samtök sem hafi lagt svo mikið af mörkum til samfélagsins og fá tækifæri til að skapa auglýsingu sem skipti raunverulega miklu máli.
„Saga Rauða krossins er löng og litrík,“ segir Snorri um hönnunarferlið. „Við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu í auglýsingunni. Sögufrásögn, teiknistíll og tónlist spila þar saman og mynda eina heild sem endurspeglar anda samtakanna.“
ADC’E er ein stærsta hönnunarhátíð Evrópu þar sem bestu verkefni álfunnar í grafískri hönnun og auglýsingum keppa um viðurkenningu. „Það er virkilega þýðingarmikið fyrir okkur sem unga hönnunarstofu að vera tilnefnd á slíku sviði – og sérstaklega með verkefni eins og þetta,“ segir Snorri.
Strik Studio sérhæfir sig í mótun vörumerkja og sköpun ásýndar ásamt víðtækri ráðgjöf á sviði samskipta. Fólkið á bak við stofuna eru auk Snorra, Viktor Weisshappel Vilhjálmsson, Jakob Hermannsson og Auður Albertsdóttir. Strik Studio starfar m.a. á sviði mörkunar, myndskreytinga, hreyfimyndagerðar og þrívíddarhönnunar og býður einnig upp á samskiptaráðgjöf, greiningar og textaskrif.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.
Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra
Innanlandsstarf 05. desember 2025„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.