Almennar fréttir
Bestu vinir seldu límonaði og heimabakað fyrir Rauða krossinn
17. september 2025
„Við viljum hjálpa öðrum,“ sögðu vinirnir Andrea, Íris og Rúrik úr Hafnarfirði sem söfnuðu tæplega 15 þúsund krónum fyrir Rauða krossinn.
Þrír vinir úr Setbergsskóla í Hafnarfirði gerðu mikla lukku fyrir utan verslun Iceland í Staðarberginu í Hafnarfirði nýverið er þau opnuðu þar lítið bakarí til styrktar verkefnum Rauða krossins. Og úrvalið var heilmikið.
„Við vorum að selja pönnukökur, límonaði, Oreo-kex, trallakökur og kókoskúlur,“ segir Andrea Klara Stefánsdóttir, níu ára. „Líka sleikjóa,“ bætir Íris Eva Eldon Jónsdóttir, einnig 9 ára, við. „Mamma bakaði pönnukökurnar og gerði límonaðið en ég bakaði trallakökurnar og kókoskúlurnar,“ segir Rúrik Heiðar Long, 7 ára, alveg að verða 8.
Þau segja eiginlega alla sem áttu leið hjá hafa annaðhvort viljað kaupa eitthvað af þeim eða einfaldlega gefa pening til söfnunarinnar. „Ein kona gaf okkur stafla af klinki,“ segir Íris.
Spurð hvað hafi verið vinsælast, svara þau einum rómi: „Límonaðið“. Kókoskúlurnar hafi fylgt þar á eftir.
„Við viljum hjálpa öðrum,“ svarar Andrea, spurð um ástæður þess að þau ákváðu að safna pening fyrir Rauða krossinn. „Já, við viljum til dæmis hjálpa þeim sem eru heimilislausir,“ bætir Rúrik við.
„Við erum saman í hljómsveit og erum bestu vinir,“ segir Andrea um vináttu þeirra þriggja. „Við gerum eiginlega alltaf allt saman.“
Hljómsveitin heitir RÍA, en nafnið er samsett úr fyrsta stafnum í nöfnum þeirra allra. Þær Andrea og Íris spila á gítar og Rúrik á trommur. Þau segjast stefna að því að halda tónleika til styrktar Rauða krossinum í framtíðinni en fyrst þurfi þau að æfa sig meira.
Með sölunni úr litla bakaríinu söfnuðu þau vinirnir 14.873 krónum sem munu fara til mannúðarverkefna Rauða krossins.
Rauði krossinn þakkar þeim Andreu, Írisi og Rúrik kærlega fyrir að leggja mannúðinni lið með þessum hætti og hvetur aðra til að feta í þeirra fótspor.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.