Almennar fréttir
Breytingar á félagslegum stuðningi
20. mars 2025
„Þetta eru þung tíðindi og við þurfum nú að sjá á eftir framúrskarandi starfsfólki sem sinnt hefur þessum mikilvægu verkefnum af einstakri alúð,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Samningur Vinnumálastofnunar við Rauða krossinn um félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd verður ekki endurnýjaður. Sömu sögu er að segja um samning ráðuneytis félagsmála um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga. Vinnumálastofnun tilkynnti Rauða krossinum um ákvörðun sína í byrjun vikunnar. Sá samningur rennur því út 31. maí og samningur vegna fjölskyldusameininga í lok júní.
Af þessum sökum hefur Rauði krossinn orðið að segja upp sjö starfsmönnum er sinnt hafa verkefnum tengdum samningunum.
„Þetta eru þung tíðindi og við þurfum nú að sjá á eftir framúrskarandi starfsfólki sem sinnt hefur þessum mikilvægu verkefnum af einstakri alúð,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Frá því að Vinnumálastofnun tilkynnti Rauða krossinum um ákvörðun sína hafa samtöl átt sér stað við forsvarsmenn hennar og stjórnvalda. „Okkur er annt um að fólkið sem hefur nýtt sér þjónustuna fái hana áfram er hún færist úr höndum okkar sjálfboðaliða og starfsfólks til hins opinbera,“ segir Gísli.
Félagslegur stuðningur Rauða krossins fyrir fólk á flótta:
Markmið samningsins milli Rauða krossins og Vinnumálastofnunar var að tryggja vandaðan félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á meðan þeir bíða niðurstöðu eða flutnings úr landi. Með félagslegum stuðningi er m.a. átt við félagsstarf, virkniúrræði og sálfélagslegan stuðning.
Áherslur Rauða krossins í verkefnum fyrir fólk á flótta eru að draga úr jaðarsetningu og auka virkni, bæta andlega heilsu og vinna að inngildingu í íslenskt samfélag. Hefur félagið stutt við flóttafólk með þessum hætti frá árinu 2016 samkvæmt samningum við stjórnvöld. Félagsstarf hefur verið í boði bæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og þau sem komin eru með vernd.
Sjálfboðaliðar með stuðningi starfsfólks Rauða krossins setja félagslega viðburði á dagskrá þar sem umsækjendur um vernd eru hýstir hverju sinni. Hafa þessir viðburðir skipt tugum í hverjum mánuði. Í fyrra komu 156 sjálfboðaliðar að skipulagningu og framkvæmd félagsstarfsins. Fjöldi viðburða á árinu 2024 voru 1.433 eða að meðaltali 119 á mánuði. Skráðar komur á alla viðburði voru 18.721 talsins.
Viðburðir félagsstarfsins hafa verið fjölbreyttir og eiga allir sameiginlegt að bjóða vettvang fyrir virkni og vinaleg samskipti í öruggu rými. Þar má nefna vikulegt opið hús, fjölskylduhóp, karla- og kvennahópa og ungmennahóp ásamt hópi fyrir flóttafólk undir hinsegin regnboganum. Einnig hafa verið í boði ýmsir íþróttaviðburðir s.s. fótbolti, blak, jóga og dans; listaviðburðir í bæði myndlist og leiklist ásamt mikilli tungumálaþjálfun á bæði íslensku og ensku á dagskrá.
Fjölskyldusameiningar:
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, nú félags- og húsnæðismálaráðuneytið, gerði á síðasta ári samning við Rauða krossinn um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga. Samningurinn var til hálfs árs og rennur út í júní á þessu ári. Félagið hafði áður sinnt þjónustunni án samnings um árabil.
Í fyrra veitti Rauði krossinn um 250 viðtöl vegna fjölskyldusameininga.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.