Almennar fréttir
Breytingar á félagslegum stuðningi
20. mars 2025
„Þetta eru þung tíðindi og við þurfum nú að sjá á eftir framúrskarandi starfsfólki sem sinnt hefur þessum mikilvægu verkefnum af einstakri alúð,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Samningur Vinnumálastofnunar við Rauða krossinn um félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd verður ekki endurnýjaður. Sömu sögu er að segja um samning ráðuneytis félagsmála um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga. Vinnumálastofnun tilkynnti Rauða krossinum um ákvörðun sína í byrjun vikunnar. Sá samningur rennur því út 31. maí og samningur vegna fjölskyldusameininga í lok júní.
Af þessum sökum hefur Rauði krossinn orðið að segja upp sjö starfsmönnum er sinnt hafa verkefnum tengdum samningunum.
„Þetta eru þung tíðindi og við þurfum nú að sjá á eftir framúrskarandi starfsfólki sem sinnt hefur þessum mikilvægu verkefnum af einstakri alúð,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Frá því að Vinnumálastofnun tilkynnti Rauða krossinum um ákvörðun sína hafa samtöl átt sér stað við forsvarsmenn hennar og stjórnvalda. „Okkur er annt um að fólkið sem hefur nýtt sér þjónustuna fái hana áfram er hún færist úr höndum okkar sjálfboðaliða og starfsfólks til hins opinbera,“ segir Gísli.
Félagslegur stuðningur Rauða krossins fyrir fólk á flótta:
Markmið samningsins milli Rauða krossins og Vinnumálastofnunar var að tryggja vandaðan félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á meðan þeir bíða niðurstöðu eða flutnings úr landi. Með félagslegum stuðningi er m.a. átt við félagsstarf, virkniúrræði og sálfélagslegan stuðning.
Áherslur Rauða krossins í verkefnum fyrir fólk á flótta eru að draga úr jaðarsetningu og auka virkni, bæta andlega heilsu og vinna að inngildingu í íslenskt samfélag. Hefur félagið stutt við flóttafólk með þessum hætti frá árinu 2016 samkvæmt samningum við stjórnvöld. Félagsstarf hefur verið í boði bæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og þau sem komin eru með vernd.
Sjálfboðaliðar með stuðningi starfsfólks Rauða krossins setja félagslega viðburði á dagskrá þar sem umsækjendur um vernd eru hýstir hverju sinni. Hafa þessir viðburðir skipt tugum í hverjum mánuði. Í fyrra komu 156 sjálfboðaliðar að skipulagningu og framkvæmd félagsstarfsins. Fjöldi viðburða á árinu 2024 voru 1.433 eða að meðaltali 119 á mánuði. Skráðar komur á alla viðburði voru 18.721 talsins.
Viðburðir félagsstarfsins hafa verið fjölbreyttir og eiga allir sameiginlegt að bjóða vettvang fyrir virkni og vinaleg samskipti í öruggu rými. Þar má nefna vikulegt opið hús, fjölskylduhóp, karla- og kvennahópa og ungmennahóp ásamt hópi fyrir flóttafólk undir hinsegin regnboganum. Einnig hafa verið í boði ýmsir íþróttaviðburðir s.s. fótbolti, blak, jóga og dans; listaviðburðir í bæði myndlist og leiklist ásamt mikilli tungumálaþjálfun á bæði íslensku og ensku á dagskrá.
Fjölskyldusameiningar:
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, nú félags- og húsnæðismálaráðuneytið, gerði á síðasta ári samning við Rauða krossinn um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga. Samningurinn var til hálfs árs og rennur út í júní á þessu ári. Félagið hafði áður sinnt þjónustunni án samnings um árabil.
Í fyrra veitti Rauði krossinn um 250 viðtöl vegna fjölskyldusameininga.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.