Almennar fréttir
Fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla þegar þarf
20. desember 2019
Rauði krossinn er til staðar
Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur, í samvinnu við Rauða krossinn, björgunarsveitir og Vegagerðina, sett upp skilti við Vesturlandsveg, sem er fyrsta skilti sinnar tegundar. Það er gert til að beina fólki að fjöldahjálparstöð sem staðsett er í Klébergskóla á Kjalarnesi. Sú fjöldahjálparstöð er hvað oftast opnuð sökum veðurs, að minnsta kosti fimm sinnum á síðasta ári. Nú síðast var hún opnuð 10. desember, þegar óveður skall á öllu landinu. Var skiltið þá notað í fyrsta sinn til þess að aðstoða fólk við að komast að fjöldahjálparstöðinni.
„Fólkið sem stendur vaktina í fjöldahjálparstöðinni í Klébergskóla eru sjálfboðaliðar Rauða krossins, en einnig eru þau starfsmenn og stjórnendur skólans, sem er mikill kostur þar sem þau þekkja bæði til skólans og svæðisins. Þegar veður skellur á leggja þau niður sín störf og fara frá fjölskyldum sínum til þess að aðstoða ferðamenn og aðra sem eru á ferðinni. Þeirra hluti í slíku verkefni er gríðarlega mikilvægur og eiga þau hrós skilið fyrir sín störf,“ segir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.
„Mikill fjöldi fólks, sérstaklega erlendir ferðamenn, á leið þarna um og yfir vetrartímann þarf við ákveðnar aðstæður að loka veginum vegna veðurs. Í kjölfarið er nauðsynlegt að opna fjöldahjálparstöð þar sem fólk getur fengið skjól á meðan versta veðrið gengur yfir. Það hafði borið á að fólk vissi ekki hvert það gæti farið og hvar stöðin væri.“
Fjöldahjálparstöðvar eru starfræktar á neyðartímum til að bjóða þolendum náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól. Þar er þeim séð fyrir helstu grunnþörfum svo sem mat, fatnaði og húsaskjóli. Einnig er gert ráð fyrir að í boði sé ýmis frekari þjónusta svo sem skyndihjálp, sálrænn stuðningur, ráðgjöf og upplýsingar. Á heimasíðu Rauða krossins er hægt að sjá staðsetningu fjöldahjálparstöðva um land allt ásamt frekar upplýsingum. Það eru margir sem koma að lokun vega og ferlið sem fer í gang er margslungið. Veðurstofa Íslands gefur viðvaranir um veður og vegna náttúruvár, Vegagerðin veitir upplýsingar um færð á vegum og tekur ákvörðun um lokun, lögregla og björgunarsveitir sinna lokunum og Rauði krossinn opnar og rekur fjöldahjálparstöðvar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.