Almennar fréttir
Fjölskylda sem kom sem flóttafólk frá Víetnam fyrir 30 árum styrkir Rauða krossinn á Íslandi
23. maí 2020
Nú í vikunni barst okkur gleðilegt símtal og heimsókn frá frænkunum Elsu og Rósu sem eru ættaðar frá Víetnam.
Nú í vikunni barst okkur gleðilegt símtal og heimsókn frá frænkunum Elsu og Rósu sem eru ættaðar frá Víetnam. Foreldrar Elsu komu hingað sem kvótaflóttamenn árið 1990 en þá var Elsa 6 ára og Rósa, móðursystir Elsu, kom nokkrum árum síðar. Þær fengu símtal í vikunni þar sem þeim var boðið að gerast Mannvinur, mánaðarlegur styrktaraðili Rauða krossins. Þær höfðu hugsað afar hlýtt til Rauða krossins undanfarin ár og ákváðu nú að setja sig í samband við okkur með þakklætisvott, en þær eiga stóra fjölskyldu hér á landi sem þær settu sig í samband við og mættu í Rauða krossinn strax daginn eftir með dágóða summu af peningum sem þær afhentu okkur sem þakklætisvott fyrir stuðninginn þegar þau stigu sín fyrstu skref í íslensku samfélagi.
Elsa og Rósa skráðu sig báðar sem sjálfboðaliða. Þær hafa komið undir sig fótunum og vilja nú gefa aftur af sér til þeirra sem á þurfa að halda.
Það er óhætt að segja að saga þeirra og stuðningur hafi snert okkur, en nokkur tár féllu í þeirra stuttu heimsókn.
Þær sendu okkur einnig fallegt bréf sem við fengum góðfúslegt leyfi til að birta brot úr.
„Góðan dag,
Elsa heiti ég og sendi þennan póst fyrir hönd fjölskyldu minnar og ættingja. Ég vona að pósturinn endurspegli þakklæti okkar í garð ykkar undanfarin 30 ár og til framtíðar.
Á þessum 30 árum hefur Rauði krossinn stutt okkur með ýmsum góðvilja hvort það var/er í formi félagslegrar aðstoðar, fjárhagsaðstoðar og ávallt með það markmið að allir fjölskyldumeðlimir aðlagist að íslensku samfélagi. Við reynum að gera okkar besta að leggja fram okkar framlag til íslensk samfélags í formi vinnuframlags, menntunar og góðgerðarstarfs með einum eða öðrum hætti.
Í stuttu máli var Rauði krossinn okkar stoð og stytta á þeim árum sem mín fjölskylda flutti til landsins sem flóttafólk frá Víetnam. Starfsfólk Rauða krossins lét það hins vegar ekki duga, heldur héldu starfsmenn sambandi við okkur. Efst í huga okkar eru þær Guðlaug Hallbjörnsdóttir heitin og Svanfríður Jónasdóttir sem við erum svo heppin að halda enn þann dag í dag sambandi við.
...
Enn og aftur þökkum við fyrir okkur. Ykkar aðstoð er okkur ómentaleg.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Elsa Dung Ínudóttir“
Á myndinni er Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins sem tók á móti þeim Elsu Dung Ínudóttur og Rósu Huong Le.
Það er ómetanlegt fyrir okkur að fá sögur sem þessa og kraftinn sem þeim fylgir inn í starfið okkar. Það gefur ótrúlega mikið að fá að vita að sú hjálp sem við veittum fyrir þrjátíu árum situr enn eftir hjá þeim sem þurftu á henni að halda og hvetur okkur til dáða í því starfi sem við vinnum með fólki á hverjum degi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra
Innanlandsstarf 05. desember 2025„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.
Sjálfboðaliðastörfin hafa víkkað sjóndeildarhringinn
Innanlandsstarf 02. desember 2025Þrátt fyrir ungan aldur hefur Salvör Ísberg verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í átta ár. Og nú samhliða doktorsnámi og starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Fyrstu Fánaberar Rauða krossins komu saman á Bessastöðum
Almennar fréttir 01. desember 2025Níu framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar úr íslensku viðskipta- og menningarlífi hafa verið sérvaldir til að taka þátt í nýju fjáröflunarverkefni Rauða krossins. Þau munu næsta árið nota „ofurkrafta sína í þágu mannúðar,“ líkt og Halla Tómasdóttir forseti Íslands sagði við hópinn á viðburði á Bessastöðum.