Almennar fréttir
Forsetinn heimsótti Rauða krossinn
25. apríl 2023
Rétt fyrir páska fór forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í heimsókn í Rauða krossinn á Suðurnesjum.
Tilgangur heimsóknarinnar var sá að forsetinn vildi kynna sér félagsstarf og þau virkniúrræði sem Rauði krossinn býður flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Forseta hafði borist til eyrna það góða og fjölbreytta starf sem unnið er og vildi sjá það með eigin augum.
Fjöldi fólks tók á móti honum og kynnti hann sér íslenskukennslu sem fram fór þennan dag, fataflokkun og fatabúðina. Að lokum þáði Guðni forseti kaffi og vöfflur og spjallaði við nærstadda.
Það þótti öllum mikið til koma að fá forsetann í heimsókn og voru viðtökur líkt og um heimsfræga rokkstjörnu væri um að ræða. Forsetinn hefur líka alltaf verið duglegur að veita starfi Rauða krossins á Íslandi athygli, enda er hann opinber verndari félagsins.
Heimsóknin var ánægjuleg í alla staði og það var gefandi fyrir skjólstæðinga Rauða krossins að upplifa svo jákvæðan viðburð. Sömuleiðis var hún góð viðurkenning fyrir sjálfboðaliðana, sem standa vaktina oft í viku og bera uppi gott starf Rauða krossins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.