Almennar fréttir
Fyrsta sóttkvíarhótelið var opnað í morgun
01. apríl 2021
Rauði krossinn hefur opnað sóttkvíarhótel fyrir farþega frá dökkrauðum og gráum löndum á Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún.
Samhliða hertum sóttvarnarráðstöfunum á landamærum sem tóku gildi á miðnætti hefur verið opnað sóttkvíarhótel við Þórunnartún. Það eru Sjúkratryggingar sem leigja húsnæðið undir starfsemina en Rauði krossinn hefur umsjón með hótelinu og þjónustar gesti þess.
Samkvæmt nýjum reglum um skimanir og sóttkví skulu öll þau sem hingað koma frá dökkrauðum eða gráuum löndum sæta sóttkví á sóttkvíarhóteli milli skimana, að þeim undanskyldum sem framvísa gildu vottorði um fyrri sýkingu eða bólsetningu.
Fyrsta flug dagsins kom til landsins um klukkan átta í morgun og í kjölfarið voru fyrstu gestir sóttkvíarhótelsins fluttir þangað og innritaðir. Síðar í dag eru fimm vélar væntanlegar til landsins, þar af þrjár frá dökkrauðum löndum, og mun gestum í Þórunnartúni því fjölga jafnt og þétt í dag og næstu daga. Á næstunni verða svo fleiri sóttkvíarhótel opnuð, meðal annars á Austurlandi.
Upplýsingar um gildandi sóttvarnarráðstafanir má ávallt finna á covid.is en lista yfir dökkrauð og grá lönd má finna á vefsíðu Landlæknis. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið gefið út frétt um breyttar reglur á landamærum þar sem einnig má finna svör við helstu spurningum tengdum dvöl á sóttkvíarhóteli. Hjálparsíminn 1717 og netspjallið á 1717.is eru opin allan sólarhring og veita ýmsar upplýsingar auk sálræns stuðnings og fjölbreyttrar aðstoðar.
Það eru þau Áslaug Ellen Yngvadóttir og Örvar Rafnsson sem hafa umsjón með sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún en þau eru bæði menntuð á sviði átaka- og öryggisfræða og hafa undanfarið starfað í farsóttarhúsi við Rauðarárstíg.
\"Við erum stolt af því hve hratt og vel uppsetning sóttkvíarhótelsins gekk. Fyrsti dagurinn fer rólega af stað en við erum tilbúin fyrir komandi gesti sem mun að öllum líkindum fjölga hratt. Ég er ánægð með hótelið sem hentar þessari breyttu starfsemi vel og við erum heppin með öflugan og góðan hóp starfsfólks,\" segir Áslaug Ellen.
\"Ég held við séum bara eins vel undirbúin og hægt er í þessum aðstæðum og munum gera okkar allra besta til að gera dvöl allra okkar gesta sem þægilegasta.\"
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“