Almennar fréttir
Fyrstu Fánaberar Rauða krossins komu saman á Bessastöðum
01. desember 2025
Níu framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar úr íslensku viðskipta- og menningarlífi hafa verið sérvaldir til að taka þátt í nýju fjáröflunarverkefni Rauða krossins. Þau munu næsta árið nota „ofurkrafta sína í þágu mannúðar,“ líkt og Halla Tómasdóttir forseti Íslands sagði við hópinn á viðburði á Bessastöðum.
Rauði krossinn á Íslandi hefur valið níu framtakssama og hugmyndaríka einstaklinga úr íslensku viðskipta- og menningarlífi til að skipa fyrsta hóp Fánabera, nýs fjáröflunarverkefnis félagsins. Fánaberar starfa í eitt ár í senn að því að upphugsa, útfæra og framkvæma spennandi og jafnvel óhefðbundin verkefni til fjáröflunar fyrir mannúðarstarf Rauða krossins.
Fánaberarnir vinna sjálfstætt að þeim markmiðum sem þeir setja sér við fjáröflunina en njóta stuðnings hver frá öðrum og starfsfólki Rauða krossins.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tók á móti Fánaberunum á Bessastöðum nýverið og markaði sá viðburður upphaf verkefnisins. Forsetinn er verndari Rauða krossins á Íslandi.
„Rauði krossinn á Íslandi hefur í meira en hundrað ár veitt fólki sem á þarf að halda aðstoð og stuðning, oft á erfiðustu stundum lífs þess,“ sagði Halla er hún tók á móti Fánaberunum. „Starf Fánaberanna mun því hvíla á þeirri löngu og merku sögu en þið munuð á sama tíma skrifa nýjan kafla í henni.“
Fánaberar Rauða krossins 2026 eru:
Andri Jónsson - Stofnandi og eigandi Barnaloppunnar
Anna Regína Björnsdóttir - Forstjóri Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi (CCEP)
Ellen Kristjánsdóttir - Tónlistarkona
Guðríður Gunnlaugsdóttir - Stofnandi og eigandi Barnaloppunnar
Ísleifur Þórhallsson - Framkvæmdastjóri Sena Live og Iceland Airwaves
Páll Eyjólfsson - framkvæmdastjóri Bæjarbíós í Hafnarfirði
Safa Jemai - Stofnandi og framkvæmdastjóri Víkonnekt og Mabrúka
Tanja Ýr Ástþórsdóttir - Frumkvöðull og áhrifavaldur
Vilhelm Þór Da Silva Neto - Leikari og grínisti
„Það er mikilvægt að fólk úr viðskipta- og menningarlífi, þar sem nýsköpun og frumkvöðlahugsun hefur löngum verið áberandi, styðji við starf mannúðarsamtaka,“ sagði forsetinn í hvatningarorðum sínum til hópsins.
Það sem einkenndi fólk í viðskipta- og menningarlífi hér á landi væri meðal annars frumkvæði, drifkraftur, sköpunargleði, þróttur og framsýni. „Þið búið öll yfir þessum eiginleikum og með því að vera Fánaberar Rauða krossins getið þið nýtt þessa ofurkrafta ykkar í þágu mannúðar,“ minnti forsetinn á. „Hlutverk ykkar sem Fánabera er ekki aðeins að safna fé til góðra verka heldur einnig að breiða út mannúðina á tímum þar sem hún virðist oft vera á undanhaldi.“
Aukin þörf á stuðningi
Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, segir mannúðarsamtök standa frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna þess að víða er verið að skera niður fjárframlög til starfsemi þeirra. Á sama tíma fari þörf á mannúðaraðstoð um veröld víða vaxandi. „Við finnum fyrir aukinni þörf hér heima á stuðningi við okkar viðkvæmustu hópa,“ sagði Gísli í ávarpi sínu á Bessastöðum. Sem dæmi hafi álag á Hjálparsímann 1717, sem er opinn allan sólarhringinn, sjaldan eða aldrei verið meira. „Þangað hringir oft á dag fólk sem er einmana og hreinlega örmagna á sálinni. Við viljum vera til staðar og gera enn meira fyrir þennan hóp.“
Um val á fyrstu Fánaberum Rauða krossins sagði Gísli að leitað hafi verið að „alveg spes fólki. Fólki sem væri áræðið, metnaðarfullt og hugsaði út fyrir kassann. Því það er einmitt það sem við þurfum öll að gera þessa dagana þegar kemur að því að fjármagna mannúðarstarf“.
Nauðsynlegt væri að renna fleiri stöðum undir starf Rauða krossins á Íslandi til framtíðar. „Og þar komið þið inn í myndina,“ sagði hann við Fánaberana. „Þið ætlið að sáldra ykkar töfrum í kringum ykkur – um allt samfélagið – og afla fjármuna sem nýttir verða til þess að bæta líf og líðan fólks.“
Verkefnin sem Fánaberar styðja með fjáröflun sinni eru m.a.:
Vinaverkefnin (hundavinir, gönguvinir, heimsóknarvinir o.fl.) sem tengja saman fólk og miða að því að rjúfa einangrun.
Skaðaminnkunarverkefni Frú Ragnheiðar og neyslurýmisins Ylju.
Neyðarvarnir á landsvísu sem eiga að tryggja að þegar áföll dynja yfir sé Rauði krossinn í stakk búinn til veita sálfélagslegan stuðning, opna fjöldahjálparstöðvar og fleira.
Félagslegur stuðningur við fólk á flótta, m.a. íslenskukennsla og fræðsla um íslenskt samfélag.
Hjálparsíminn 1717. Hægt er að hafa samband allan sólarhringinn, allan ársins hring. Um 20 þúsund samtöl berast árlega. Dæmi um erindi: Einamanaleiki, þunglyndi, kvíði, sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaði. Í ár hafa þung og erfið samtöl verið fleiri en áður.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Greiðsluseðlar vegna sjúkraflutninga eingöngu rafrænir
Almennar fréttir 28. nóvember 2025Rauði krossinn hefur nú hætt að prenta út og senda greiðsluseðla til þeirra sem hafa þurft að nýta sér þjónustu sjúkrabíla. Seðlarnir eru þar með eingöngu rafrænir og verða sendir í heimabanka.
Jólamerkimiðar Rauða krossins komnir út
Almennar fréttir 27. nóvember 2025Verkefni Rauða krossins á Íslandi í heila öld eru þemað á fallegum myndum sem prýða jólamerkimiða félagsins í ár. Miðunum hefur þegar verið dreift inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu og þá verður hægt að nálgast víða um landið á næstu dögum.
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.