Almennar fréttir
Gísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
04. febrúar 2025
Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.

Gísli Rafn gengur til liðs við Rauða krossinn með tæplega þriggja áratuga reynslu af þróunar- og hjálparstörfum á innlendum og erlendum vettvangi. Gísli Rafn býr yfir mikilli reynslu af stjórnunarstörfum, stafrænum umbreytingum og stefnumótun bæði innan alþjóðasamtaka og opinberra aðila. Hann þjónaði einnig sem þingmaður á undanförnu kjörtímabili, þar sem hann sat í utanríkismálanefnd og þróunarsamvinnunefnd fyrir hönd Pírata. Gísli Rafn er með meistarapróf í þróunarfræðum frá Háskóla Íslands.
Gísli Rafn var um langt skeið yfirmaður neyðarmála hjá NetHope, regnhlífasamtökum 60 stærstu hjálparsamtaka í heimi þar sem hann kom að viðbragðsstjórnun vegna fjölmargra umfangsmikilla náttúruhamfaravíða um heim. Gísli Rafn var einnig hluti af alþjóðlegu útkallsteymi sérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum, UNDAC, sem kallað er út þegar stórar hamfarir dynja yfir og nauðsynlegt er að virkja viðbragð alþjóðasamfélagsins. Auk þess var Gísli Rafn stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar þegar hún fór til Haiti árið 2010 í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta þar í landi.
"Rauði krossinn á Íslandi gegnir lykilhlutverki í að styðja við þá sem þurfa mest á aðstoð að halda, bæði innanlands og utan. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi starfsmanna og sjálfboðaliða sem starfa hjá Rauða krossinum við að efla starfsemi félagsins og tryggja að við verðum áfram til staðar fyrir þá sem þurfa á okkur að halda." segir Gísli Rafn um ráðningu sína.
“Með ráðningu Gísla Rafns hefur Rauði krossinn fengið reynslumikinn og framsækinn leiðtoga sem mun vinna að því að styrkja og efla starfsemi félagsins, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.” segir Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.

Nýtt forvarnarátak: Öryggi barna í sundi
Innanlandsstarf 23. júní 2025„Drukknun er algengari en flestir halda og stundum er því talað um hinn þögla faraldur,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi í samvinnu við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi.

Sigríður tekur við formennsku af Silju Báru
Almennar fréttir 19. júní 2025„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir öllum þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi.