Almennar fréttir
Gísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
04. febrúar 2025
Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.
Gísli Rafn gengur til liðs við Rauða krossinn með tæplega þriggja áratuga reynslu af þróunar- og hjálparstörfum á innlendum og erlendum vettvangi. Gísli Rafn býr yfir mikilli reynslu af stjórnunarstörfum, stafrænum umbreytingum og stefnumótun bæði innan alþjóðasamtaka og opinberra aðila. Hann þjónaði einnig sem þingmaður á undanförnu kjörtímabili, þar sem hann sat í utanríkismálanefnd og þróunarsamvinnunefnd fyrir hönd Pírata. Gísli Rafn er með meistarapróf í þróunarfræðum frá Háskóla Íslands.
Gísli Rafn var um langt skeið yfirmaður neyðarmála hjá NetHope, regnhlífasamtökum 60 stærstu hjálparsamtaka í heimi þar sem hann kom að viðbragðsstjórnun vegna fjölmargra umfangsmikilla náttúruhamfaravíða um heim. Gísli Rafn var einnig hluti af alþjóðlegu útkallsteymi sérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum, UNDAC, sem kallað er út þegar stórar hamfarir dynja yfir og nauðsynlegt er að virkja viðbragð alþjóðasamfélagsins. Auk þess var Gísli Rafn stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar þegar hún fór til Haiti árið 2010 í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta þar í landi.
"Rauði krossinn á Íslandi gegnir lykilhlutverki í að styðja við þá sem þurfa mest á aðstoð að halda, bæði innanlands og utan. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi starfsmanna og sjálfboðaliða sem starfa hjá Rauða krossinum við að efla starfsemi félagsins og tryggja að við verðum áfram til staðar fyrir þá sem þurfa á okkur að halda." segir Gísli Rafn um ráðningu sína.
“Með ráðningu Gísla Rafns hefur Rauði krossinn fengið reynslumikinn og framsækinn leiðtoga sem mun vinna að því að styrkja og efla starfsemi félagsins, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.” segir Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“