Almennar fréttir
Hjálpum íbúum Palestínu
11. maí 2021
Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað sérstaka söfnun svo halda megi áfram mikilvægum verkefnum félagsins í Palestínu nú þegar ástandið þar er eins erfitt og raun ber vitni.
Í hartnær tuttugu ár hefur Rauði krossinn á Íslandi átt farsælt samstarf við Rauða hálfmánann í Palestínu. Áhersla samstarfsverkefna félaganna tveggja hefur verið að auka áfallaþol og viðnámsþrótt palestínska samfélagsins og bæta geðheilsu íbúa landsins. Rauði hálfmáninn hefur þjálfað hundruð sjálfboðaliða til að veita sálfélagslegan stuðning þegar áföll dynja yfir auk þess sem félagið veitir ýmis konar þjónustu við fólk sem þjáist vegna hernámsins. Þá fá börn sérstaka aðstoð í hópum með jafnöldrum sínum og ungmennum er gefinn kostur á að starfa sem sjálfboðaliðar og fá þannig margvíslega þjálfun sem eflir þau og hvetur til jákvæðrar samfélagslegrar þátttöku.
Þó verkefni palestínska Rauða hálfmánans, með stuðningi Rauða krossins á Íslandi, hafi til þessa náð til fjölda barna, ungmenna og fullorðinna í Palestínu, er ljóst að mikið verk er enn fyrir hendi ef aðstoða á heimafólk við að komast í gegnum og vinna úr þeim erfiðu aðstæðum sem þar ríkja.
Rauði krossinn á Íslandi hefur nú sett af stað sérstaka söfnun svo halda megi áfram þessum mikilvæga stuðningi nú þegar ástandið er eins erfitt og raun ber vitni. Það er von félagsins að einstaklingar og fyrirtæki taki átakinu vel og leggi söfnuninni lið.
Hægt er að veita stuðning með eftirtöldum leiðum:
- Söfnunarsíða Rauða krossins
- SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
- Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
- Kass: raudikrossinn eða 7783609
- Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.

Vertu klár á táknmáli
Innanlandsstarf 09. maí 2025Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.