Almennar fréttir
Krabbameinsfélagið gefur sokka til verkefna Rauða krossins
28. apríl 2021
Rauði krossinn fékk í gær ríflega 500 sokkapör að gjöf frá Krabbameinsfélaginu. Sokkunum verður komið áfram til umsækjenda um alþjóðlega vernd, notenda Frú Ragnheiðar og gesta Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Lóan er löngu komin, hefur kveðið burt snjóinn og það er komið sumar og um leið tilefni til að gefa sumargjafir. Krabbameinsfélagið ákvað að nýta tækifærið og safnaði saman um 520 sokkapörum sem hafa verið til sölu í Mottumars, árveknisátaki um krabbamein í körlum, til að gefa skjólstæðingum nokkurra verkefna Rauða krossins á Íslandi Á hverju ári seljast allt frá 15 til 25 þúsund sokkapara í átakinu, sem gerir það að verkum að ómögulegt reynist að spá fyrir um nákvæma tölu seldra sokka.
Það var Krabbameinsfélaginu hjartans mál að þessir glæsilegu sokkar kæmust í notkun og kom upp sú hugmynd að Rauði krossinn á Íslandi væri best til þess fallinn að koma þeim í góðar hendur – eða á góða fætur réttara sagt. Þau sem nýta sér þjónustu og úrræði Rauða krossins geta því átt von á litríkum sokkum sem eru einstaklega heppilegir til að klæðast nú þegar hitastigið verður æ skaplegra og hillir undir rýmkun á samkomutakmörkunum sem hafa haft áhrif mörg af verkefnum félagsins.
\"Þegar þessi hugmynd kom upp þá var aldrei spurning að af henni yrði,\" sagði Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Sokkarnir eru einstaklega þægilegir og flottir að okkar mati og vonandi eru viðtakendur þeirra sama sinnis. Við vonum innilega að þeir komi að góðum notum. Það er nú svo afskaplega þægilegt að smeygja sér í nýja sokka, um það erum við öll sammála.
Það var Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, sem tók við sumarsokkagjöfinni frá Höllu við höfuðstöðvar Rauða krossins í Efstaleiti:
Við kunnum Krabbameinsfélaginu okkar bestu þakkir fyrir þessa rausnarlegu og litríku sumargjöf. Ég er sannfærður um að sokkunum verði tekið fagnandi og muni koma að góðum notum hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd, notendum skaðaminnkunar Frú Ragnheiðar og gestum Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.

Vertu klár á táknmáli
Innanlandsstarf 09. maí 2025Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.