Almennar fréttir
Neyðarsöfnun fyrir íbúa Afganistans
17. ágúst 2021
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur sent frá sér ákall vegna ástandsins í Afganistan, sem veldur miklum þjáningum fyrir borgara í landinu.
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur sent frá sér ákall vegna ástandsins í Afganistan, sem veldur miklum þjáningum fyrir borgara í landinu. Frá 1. ágúst síðastliðnum hefur Rauði krossinn tekið á móti fleiri en 7.600 sjúklingum sem hafa slasast í átökum, auk þess hefur yfir 40.000 sjúklingum verið sinnt á sjúkrahúsum er Rauði krossinn hefur stutt frá byrjun júní síðastliðnum.
Rauði krossinn gerir ráð fyrir að þörf sé á bráðri heilbrigðisþjónustu á næstu mánuðum og endurhæfingu borgara á næstu árum vegna sprengja sem komið hefur verið fyrir víðsvegar í jarðvegi um landið. Fjöldi barna og ungs fólks hefur misst útlimi sína vegna slíkra sprenginga.
Brýn þörf hefur verið mannúðaraðstoð í Afganistan undanfarin ár og síst hefur dregið úr þeirri þörf síðustu vikur og daga.
Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið sérstaka söfnun til styrktar íbúum Afganistan í ljósi þess neyðarástands sem skapast hefur í landinu vegna yfirtöku Talíbana á fjölda héraða landsins undanfarnar vikur og daga. Það fjármagn sem safnast mun renna til Alþjóða Rauða krossins sem hefur sinnt mannúðarstarfi í Afganistan síðustu þrjá áratugi vegna viðvarandi átaka, þurrka og flóða á víxl. Fjármagninu verður varið í mannúðaraðgerðir í landinu til að stuðla að velferð íbúa þess.
Rauði krossinn leggur áherslu á að halda áfram að veita íbúum landsins mannúðaraðstoð, sérstaklega í ljósi þess flókna ástands sem þar nú ríkir, með áherslu á að hjálpa særðum og sjúkum, styðja sjúkrahús og heilsugæslur, bæta vatns- og hreinlætisaðstöðu ásamt því að aðstoða fólk við að vinna gegn áhrifum COVID-19 faraldursins sem landsmenn hafa ekki farið varhluta af, og styðja við mannúðarstarf Afganska Rauða hálfmánans.”
Rauði krossinn hefur einstakt aðgengi á landsvísu til að sinna mannúðaraðstoð til handa þolendum átaka í Afganistan og þess ástands sem þar hefur nú skapast. Hreyfing Rauða krossins gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum og skal hún gæta hlutleysis í ófriði og aldrei taka þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði.
Hægt er að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð til stríðshrjáðra borgara með eftirtöldum leiðum:
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
Kass: raudikrossinn eða 7783609
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“