Almennar fréttir
Neyðarsöfnun vegna vopnaðra átaka í Úkraínu
24. febrúar 2022
Rauði krossinn hefur hafið neyðarsöfnun vegna vopnaðra átaka í Úkraínu sem hófust í morgun. Alþjóða Rauði krossinn er þegar með umfangsmikla mannúðaraðstoð í landinu vegna ástandsins sem hefur varað í austur Úkraínu undanfarin átta ár og vinnur hönd í hönd með Rauða krossinum í Úkraínu við að mæta þörfum almennra borgara og lina þjáningar vegna vopnaðra átaka.
Fyrirséð er að neyð almennra borgara mun aukast dag frá degi haldi átökin áfram og óttast er að bæði skortur á vatni og matvælum aukist. Mannúðaraðstoð Rauða krossins leitast fyrst og fremst við að vernda óbreytta borgara, minna deiluaðila á skyldur sínar í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög stuðla að því að nauðsynlegir innviðir á borð við vatns- og rafmagnsveitur verði ekki gerðir að skotmörkum.
„Við hvetjum alla stríðandi aðila til að virða alþjóðleg mannúðarlög í hvívetna“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins sem minnir á að samkvæmt þeim njóti almennir borgarar griða sem og borgaralegir innviðir á borð við vatns- og rafmagnsveitur sem ekki tengjast hernaði á nokkurn hátt. Stríðandi fylkingum er skylt að gæta meðalhófs í hernaðaraðgerðum sínum.
„Við vitum ekki hvort eða hvernig átökin munu vinda upp á sig“ segir Kristín en bendir á að ljóst sé að mannúðarvandi almennra borgara í Úkraínu muni aukast og við óttumst einnig að það verði talsverður fjöldi sem neyðist til að flýja land vegna átakanna. Flestir munu líklega leita til nágrannaríkja þar sem Rauði krossinn hefur þegar hafið undirbúning á móttöku fólks en það er einnig viðbúið að hingað muni einhverjir leita skjóls.“
Allt fjármagn sem safnast í neyðarsöfnun Rauða krossins verður nýtt til að mæta þörfum íbúa Úkraínu og veita neyðarþjónustu eins og tryggja aðgengi að mat, vatni, heilbrigðisþjónustu, húsaskjóli og veita sálrænan stuðning.
Hægt er að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð til íbúa í Úkraínu með eftirtöldum leiðum:
- SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
- Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
- Kass: raudikrossinn eða 7783609
- Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólk á Gaza sárbiður um hjálp
Alþjóðastarf 19. maí 2025Aukinn þungi hefur færst í hernaðaraðgerðir á Gaza síðustu daga og hundruð almennra borgara, sem skulu njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, verið drepin. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Við verðum að brýna raustina“
Almennar fréttir 13. maí 2025„Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst.“

Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.