Almennar fréttir
Nýir og rúmbetri sjúkrabílar á leiðinni
24. mars 2025
„Nú verður hægt að sitja báðum megin við sjúkling inni í sjúkrarýminu þannig að aðgengi að sjúklingi verður mun betra meðan á flutningi stendur,“ segir Marinó Már Marinósson, verkefnastjóri sjúkraflutninga hjá Rauða krossinum.
Á næstu mánuðum mun Rauði krossinn á Íslandi fá afhenta 25 nýja sjúkrabíla. Um er að ræða sautján Van-sjúkrabíla eins og þegar þekkjast á götum landsins og átta svokallaða Box-bíla, þ.e. sjúkrabíla með kassa. Er þetta í fyrsta sinn sem Box-bílar eru keyptir hingað til lands í kjölfar útboðs.
Samið hefur verið við Fastus ehf. um kaupin á bílunum 25 með möguleika á að kaupa aðra 25 til viðbótar. Fjársýsla ríkisins hafði umsjón með útboðinu, sem auglýst var á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Bifreiðarnar verða smíðaðar hjá BAUS AT í Póllandi sem hefur smíðað sjúkrabíla fyrir Rauða krossinn undanfarin ár.

Rauði krossinn heldur utan um sjúkrabílaflota landsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Í því felst að félagið útvegar og annast innkaup á sjúkrabílum auk þess að reka þá sem og tækjabúnað til sjúkraflutninga.
„Með tilkomu Box-bíla er verið að mæta þörf fyrir betra rými og vinnuaðstöðu inni í sjúkrarýminu,“ segir Marinó Már Marinósson, verkefnastjóri sjúkraflutninga hjá Rauða krossinum. „Nú verður hægt að sitja báðum megin við sjúkling inni í sjúkrarýminu þannig að aðgengi að sjúklingi verður mun betra meðan á flutningi stendur, ólíkt hefðbundnum sjúkrabílum þar sem rýmið er takmarkaðra.“
Kassarnir á Box-bílunum eru hannaðir sérstaklega fyrir sjúkraflutninga og skipulag á skápum og hillum í þeim er að sögn Marinós betra og stærra. „Box-bílarnir eru byggðir fyrir mikla notkun og taldir endingarbetri,“ segir Marinó. Boxin séu sett saman í einingum og því eigi að vera auðveldara að skipta út eða gera við einstaka hluta, eins og skápa og rafkerfi, án þess að hafa áhrif á aðra hluti í bílnum. „Ég tel þetta mikla framför.“
Gert er ráð fyrir að nýju bílarnir verði staðsettir á þeim stöðum á landinu þar sem álagið er mest, til dæmis á stóru þéttbýlisstöðunum.
Í dag á Rauði krossinn og rekur 94 sjúkrabíla, þar af eru 80 í notkun en fjórtán hafðir til vara. Meðalaldur flotans er nú sex ár.
Stefnt er að því að fyrstu bílarnir komi til landsins eftir um 18 mánuði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.

Nýtt forvarnarátak: Öryggi barna í sundi
Innanlandsstarf 23. júní 2025„Drukknun er algengari en flestir halda og stundum er því talað um hinn þögla faraldur,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi í samvinnu við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi.

Sigríður tekur við formennsku af Silju Báru
Almennar fréttir 19. júní 2025„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir öllum þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi.