Almennar fréttir
Ragna Árnadóttir kjörin í stjórn IFRC
19. júní 2022
Rauði krossinn á Íslandi hlaut í dag kjör til stjórnar Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC Governing Board) á aðalfundi IFRC sem haldinn er í Genf. Ragna Árnadóttir er fulltrúi Rauða krossins á Íslandi og er sjálfboðaliði í stjórninni næstu fjögur ár.
IFRC er samband allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan, alls 192 félög. Í stjórninni sitja forseti, fimm varaforsetar og fulltrúar frá 20 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan.
Ragna er skrifstofustjóri Alþingis, var áður aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og dómsmálaráðherra. Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Íslandi um árabil og var varaformaður stjórnar félagsins frá 2012-2020.
Rauði krossinn á Íslandi hefur ein sinni áður átt fulltrúa í stjórn IFRC, en Guðjón Magnússon læknir sat í stjórninni á árunum 1989-1993.
Hlutverk stjórnarinnar er m.a. að vera ráðgefandi milli aðalfunda IFRC, ráða framkvæmdastjóra IFRC og sjá til þess að ákvörðunum aðalfundar sé framfylgt. Með kjörinu hefur Rauði krossinn á Íslandi tækifæri til að móta stefnu IFRC til framtíðar og tryggja eftirfylgni við markmið alþjóðahreyfingarinnar um mannúð og óhlutdrægni um allan heim.
Á myndinni eru þær Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, Ragna Árnadóttir og Kristín S. Hjálmtýsdóttir eftir kjörið í dag.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.