Almennar fréttir
Rauði krossinn í samstarf við Háskóla Íslands
06. desember 2018
Háskóli Íslands afhendir tölvur sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki.
Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi tóku í vikunni við tíu tölvum sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki. Við sama tækifæri undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, samkomulag um að Háskólinn láti Rauða krossinum árlega í té tölvur sem hætt er að nota í skólanum.
Í samkomulaginu kemur fram að Háskólinn afhendi Rauða krossinum á Íslandi tölvurnar til notkunar í starfi sínu og þær muni nýtast því flóttafólki sem Rauði krossinn vinnur með, t.d. í íslenskunámi, almennu námi og við atvinnu- og húsnæðisleit.
Við afhendingu tölvanna þakkaði rektor öllu starfsfólki Háskólans sem hefði komið að verkefninu og sagði það njóta hlýhugs og stuðnings fólks um allan háskóla. „Ánægjulegt er að tryggja áframhald verkefnisins með formlegu samkomulagi milli Háskóla Íslands og Rauða krossins. Við munum afhenda fleiri tölvur næsta sumar svo að Rauði krossinn geti nestað fleiri nemendur úr hópi flóttafólks með tölvum í tæka tíð fyrir haustið,“ sagði Jón Atli.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir: „Það er afar mikilvægt að stutt sé við nám flóttafólks og ekki síst unga fólksins í þeirra hópi. Mannauður samfélagsins verður meiri og fjölbreyttari með komu flóttafólks og annarra innflytjenda og við þurfum að veita þeim tækifæri til að eflast og blómstra í nýjum heimkynnum. Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Háskólann.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.