Almennar fréttir
Rauði krossinn í samstarf við Háskóla Íslands
06. desember 2018
Háskóli Íslands afhendir tölvur sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki.
Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi tóku í vikunni við tíu tölvum sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki. Við sama tækifæri undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, samkomulag um að Háskólinn láti Rauða krossinum árlega í té tölvur sem hætt er að nota í skólanum.
Í samkomulaginu kemur fram að Háskólinn afhendi Rauða krossinum á Íslandi tölvurnar til notkunar í starfi sínu og þær muni nýtast því flóttafólki sem Rauði krossinn vinnur með, t.d. í íslenskunámi, almennu námi og við atvinnu- og húsnæðisleit.
Við afhendingu tölvanna þakkaði rektor öllu starfsfólki Háskólans sem hefði komið að verkefninu og sagði það njóta hlýhugs og stuðnings fólks um allan háskóla. „Ánægjulegt er að tryggja áframhald verkefnisins með formlegu samkomulagi milli Háskóla Íslands og Rauða krossins. Við munum afhenda fleiri tölvur næsta sumar svo að Rauði krossinn geti nestað fleiri nemendur úr hópi flóttafólks með tölvum í tæka tíð fyrir haustið,“ sagði Jón Atli.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir: „Það er afar mikilvægt að stutt sé við nám flóttafólks og ekki síst unga fólksins í þeirra hópi. Mannauður samfélagsins verður meiri og fjölbreyttari með komu flóttafólks og annarra innflytjenda og við þurfum að veita þeim tækifæri til að eflast og blómstra í nýjum heimkynnum. Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Háskólann.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.