Almennar fréttir
Rauði krossinn telur ekki forsvaranlegt að senda flóttafólk til Grikklands
07. maí 2021
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður og hvetur íslensk stjórnvöld til að hverfa frá þeim.
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn á Íslandi þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður. Sú afstaða Rauða krossins byggir á fjölmörgum frásögnum skjólstæðinga félagsins sem hafa leitað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi eftir að hafa verið veitt vernd í Grikklandi auk þess sem áreiðanlegar heimildir, þ.m.t. fréttaflutningur og skýrslur alþjóðlegra hjálpar- og mannúðarsamtaka, skjóta enn styrkari stoðum undir afstöðu félagsins. Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra sem og í opinberri umræðu.
Vorið 2020 tók Útlendingastofnun þá rökréttu og skynsamlegu ákvörðun að falla frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands á grundvelli aðstæðna og óvissu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru en fyrir voru efnahagslegar og félagslegar aðstæður í landinu slæmar, sérstaklega fyrir flóttafólk. Í kjölfarið tók stofnunin svo ákvörðun um að taka umsóknir einstaklinga og fjölskyldna með alþjóðlega vernd í Grikklandi til efnismeðferðar og hið sama gerði kærunefnd útlendingamála.
Það er mat Rauða krossins að þær aðstæður sem horft var til á vormánuðum 2020 hafi ekki batnað, nema síður sé. Flóttafólk mætir mikilli mismunun auk þess sem margvíslegar hindranir standa í vegi fyrir lögbundnum réttindum til félagslegrar aðstoðar, heilbrigðisþjónustu og aðgengis að húsnæðis- og atvinnumarkaði auk þess sem grísk stjórnvöld hafa haldið áfram harkalegum aðgerðum á landamærunum. Þá hafa neikvæð áhrif kórónuveirunnar aukist til muna og fyrirséð að langtímaáhrif faraldursins á efnahag og innviði Grikklands verða alvarleg.
Að teknu tilliti til alls þessa hvetur Rauði krossinn á Íslandi íslensk stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.

Máluðu myndir og seldu vegfarendum
Almennar fréttir 12. september 2025Frænkurnar Theodóra Guðrún Kaaber og Þórunn Björk Kaaber afhentu Rauða krossinum nýverið fé sem þær höfðu safnað fyrir fólk á Gaza og önnur verkefni félagsins.

Þekkir kasmírull úr margra metra fjarlægð
Innanlandsstarf 11. september 2025Staflar af fötum og öðrum textíl. Tonn á tonn ofan. Mörg slík á dag. Sumar flíkurnar handónýtar. Aðrar lélegar. „En inn á milli leynast oft gullmolar,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fatasöfnunar hjá Rauða krossinum.