Almennar fréttir
Rauði krossinn telur ekki forsvaranlegt að senda flóttafólk til Grikklands
07. maí 2021
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður og hvetur íslensk stjórnvöld til að hverfa frá þeim.
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn á Íslandi þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður. Sú afstaða Rauða krossins byggir á fjölmörgum frásögnum skjólstæðinga félagsins sem hafa leitað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi eftir að hafa verið veitt vernd í Grikklandi auk þess sem áreiðanlegar heimildir, þ.m.t. fréttaflutningur og skýrslur alþjóðlegra hjálpar- og mannúðarsamtaka, skjóta enn styrkari stoðum undir afstöðu félagsins. Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra sem og í opinberri umræðu.
Vorið 2020 tók Útlendingastofnun þá rökréttu og skynsamlegu ákvörðun að falla frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands á grundvelli aðstæðna og óvissu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru en fyrir voru efnahagslegar og félagslegar aðstæður í landinu slæmar, sérstaklega fyrir flóttafólk. Í kjölfarið tók stofnunin svo ákvörðun um að taka umsóknir einstaklinga og fjölskyldna með alþjóðlega vernd í Grikklandi til efnismeðferðar og hið sama gerði kærunefnd útlendingamála.
Það er mat Rauða krossins að þær aðstæður sem horft var til á vormánuðum 2020 hafi ekki batnað, nema síður sé. Flóttafólk mætir mikilli mismunun auk þess sem margvíslegar hindranir standa í vegi fyrir lögbundnum réttindum til félagslegrar aðstoðar, heilbrigðisþjónustu og aðgengis að húsnæðis- og atvinnumarkaði auk þess sem grísk stjórnvöld hafa haldið áfram harkalegum aðgerðum á landamærunum. Þá hafa neikvæð áhrif kórónuveirunnar aukist til muna og fyrirséð að langtímaáhrif faraldursins á efnahag og innviði Grikklands verða alvarleg.
Að teknu tilliti til alls þessa hvetur Rauði krossinn á Íslandi íslensk stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.

Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.