Almennar fréttir
Skiljum engan eftir, út undan eða í hættu
20. október 2021
Rauði krossinn á Íslandi og Rauða kross hreyfingin á heimsvísu hefur um áratugaskeið brugðist við neyð víða um heim og stutt við samfélög er þau vinna að því að ná heimsmarkmiðunum.
Það er vel þekkt að COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg samfélagsleg áhrif, ekki bara hér innanlands heldur á heimsvísu. Fylgifiskar faraldursins hafa meðal annars verið aukin hætta á ójöfnuði og ofbeldi. Faraldrinum hefur fylgt aukin jaðarsetning, heimilisofbeldi, geðheilsutengd vandamál og tekjutap og hann hefur verulega skert möguleika okkar á að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Oftast eru það fátækustu og viðkvæmustu hóparnir sem verða verst út, þar með talið börn, aldraðir, öryrkjar, flóttafólk og aðrir farendur og oft eru það konur sem verða hvað verst úti. Þetta þýðir auknar áskoranir fyrir okkur sem tökum þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð. Í starfi okkar þurfum við að gera okkur grein fyrir því að áhrif faraldsins snerta okkur ekki öll á sama hátt. Hver við erum skiptir máli þegar kemur að möguleikum okkar til að bregðast við erfiðum tímum.
Rauði krossinn á Íslandi og Rauða kross hreyfingin á heimsvísu hefur um áratugaskeið brugðist við neyð víða um heim og stutt við samfélög er þau vinna að því að ná heimsmarkmiðunum. Í öllu neyðarstarfi og þróunarsamvinnu okkar er hugað að því að skilja fjölbreytileika samfélaganna sem við vinnum með, og að við skiljum hverjar hinar mismunandi þarfir eru og áhættuþættir fyrir hvern og einn. Ef við náum ekki til þeirra sem hvað höllustum fæti standa munum við aldrei ná markmiðum okkar. Við þurfum einnig að geta brugðist við þeim áhættuþáttum sem fólk stendur frammi fyrir og tryggja að aðgerðir okkar valdi ekki auknum skaða.
Við í Rauða krossinum viljum efla umræðu um þessi mál og skapa samræðuvettvang um mikilvægi þess að huga að jafnrétti, þátttöku og vernd gegn ofbeldi í alþjóðlegri neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu. Í samvinnu við Jafnréttisskóla GRÓ og með styrk frá utanríkisráðuneytinu höfum við skipulagt málstofu sem verður haldin á morgun og föstudag.
Málstofunni er ætlað að vera vettvangur fyrir félagasamtök og aðra er málið varða, meðal annarsfólk úr háskólasamfélaginu og frá hinu opinbera, til að deila reynslu og efla umræðu og samvinnu um ofangreind málefni. Á morgun fimmtudaginn 21 október verður málstofan vefræn. Dagskráin er í fjórum hlutum, í fyrsta hluta verður fjallað um stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og stöðu kvenna og barna á heimsvísu. Annar hluti verður um málefni tengd vernd gegn ofbeldi, sérstaklega verður fjallað um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og þvinguð barnahjónabönd. Þriðji hluti fjalla um kyn í tengslum við jafnrétti og hvernig starf tengt jafnrétti hefur þróast. Síðasti hluti fjallar um jafna þátttöku þar sem tekin verða dæmi um hvernig við tryggjum jafna þátttökumöguleika fólks, þar á meðal verður sérstaklega talað um þátttöku fatlaðs fólks.
Föstudaginn 22. október mun málstofan fara fram í Háskóla Íslands, þar sem verða 3 vinnustofur. Meiri upplýsingar um dagskránna og hvernig má skrá sig er hægt að finna á https://pgiseminar.wordpress.com/.
Höfundar eru Natalia Herrera Eslava og Sólrún María Ólafsdóttir, verkefnastjórar á alþjóðasviði Rauða krossins á Íslandi
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“