Almennar fréttir
Skyndihjálparleiðbeinandi sómalska Rauða hálfmánans lést við störf
14. febrúar 2023
Sjálfboðaliðinn var við störf á Lasanod-svæðinu og varð fyrir skoti þegar vopnuð átök blossuðu upp.

Á laugardag, 11. febrúar, lést sómalskur skyndihjálparleiðbeinandi á vegum sómalska Rauða hálfmánans við sjálfboðastörf eftir að hafa orðið fyrir skoti. Vegna langvinnra þurrka er ástandið í austurhluta Afríku óstöðugt og vopnuð átök hafa átt sér stað á Lasanod-svæðinu í Sómalíu, þar sem sjálfboðaliðinn var að aðstoða fólk.
Framkvæmdastjóri sómalska Rauða hálfmánans, Ahmed Abdi Bakal, sem hefur meðal annars unnið náið með starfsfólki Rauða krossins á Íslandi vegna verkefna félagsins í Sómalíu, sagði í yfirlýsingu vegna málsins:
„Við erum harmi slegin og orð koma að engu gagni við að tjá sorg okkar á þessari stundu. Ég sendi dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur til allra í sómalskra Rauða hálfmánanum, sérstaklega þeirra sem sinna heilbrigðismálum, sjálfboðaliða í Lasanod-deildinni og fjölskyldu eins duglegasta sjálfboðaliðans okkar, Abdisalam Musa Saed. Megi Allah veita honum frið í paradís.“
Starfsfólk sómalska Rauða hálfmánans er að mæta mjög erfiðri mannúðarkrísu þar í landi vegna langvinnra þurrka sem hafa skapað alvarlegt fæðuóöryggi og það hefur leitt til ýmissa alvarlegra félagslegra vandamála og grafið undan öryggi.
Rauði krossinn á Íslandi hélt nýverið neyðarsöfnun vegna þessarar stöðu sem varð til þess að hægt var að senda 28 milljónir króna til Sómalíu og félagið hefur beitt sér í ýmsum verkefnum til að koma til móts við erfiðleikana þar í landi. Rauði krossinn á Íslandi sendir kollegum sínum í Sómalíu innilegar samúðarkveðjur.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Þörf á tafarlausum pólitískum aðgerðum
Alþjóðastarf 18. september 2025„Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi um ástandið á Gaza. „Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“

Bestu vinir seldu límonaði og heimabakað fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 17. september 2025„Við viljum hjálpa öðrum,“ sögðu vinirnir Andrea, Íris og Rúrik úr Hafnarfirði sem söfnuðu tæplega 15 þúsund krónum fyrir Rauða krossinn.

Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.