Almennar fréttir
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
15. desember 2025
„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Nemendur í Álfhólsskóla í Kópavogi héldu góðgerðarviku nýverið sem endaði á sérstökum góðgerðardegi í þeim tilgangi að safna fé til góðra málefna. Settir voru upp allra handa sölubásar í skólanum þar sem gestir gátu keypt varning sem börnin höfðu sjálf búið til. Þau höfðu bakað, föndrað og smíðað í góðgerðarvikunni en einnig safnað hlutum heima við sem þau síðan buðu til sölu.
Saman söfnuðu nemendurnir einni milljón króna sem þeir ákváðu að skipta jafnt á milli þriggja félaga: Rauða krossins á Íslandi, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Barnaspítala Hringsins.
„Þið hafið sýnt að litlar gjörðir geta haft stór áhrif,“ sagði Arnbjörg Jóhannsdóttir, deildarstjóri í Álfhólsskóla, við nemendurna er styrkurinn var formlega afhentur fulltrúum Rauða krossins í síðustu viku.
„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði Bjarki, nemandi á yngsta stigi skólans, við afhendinguna. „Rauði krossinn kemur að margvíslegu mannúðarstarfi sem við teljum að sé mikilvægt að fái styrk.“
Í hlut Rauða krossins komu 333.447 krónur og tóku Nadía Ýr Emilsdóttir og Sandra María Troelsen, verkefnastjórar hjá félaginu, við styrknum.
„Í dag höfum við séð hvað samhugur og samkennd geta gert,“ sagði Arnbjörg deildarstjóri. „Þið hafið lagt ykkur fram til að gleðja aðra og það er stærsta gjöfin sem hægt er að gefa. Takk fyrir frábært starf. Nú skulum við halda áfram að láta gott af okkur leiða – í dag, á morgun og alla daga.“
Við hjá Rauða krossinum tökum heilshugar undir þessi góðu orð Arnbjargar og þökkum nemendum Álfhólsskóla kærlega fyrir stuðninginn.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“