Almennar fréttir
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
03. nóvember 2025
Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.
Guðný Líf Einarsdóttir og Salka Sól Björgvinsdóttir eru hugmyndaríkar níu ára vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi. Þær mættu í höfuðstöðvar Rauða krossins um daginn og færðu félaginu peninga sem þær söfnuðu með frumlegum og skemmtilegum hætti.
Stelpurnar smíðuðu búð, merktu hana í bak og fyrir og seldu vegfarendum ýmislegt, meðal annars eigið handverk á tombólu. Þær saumuðu til dæmis alls konar hluti, svo sem bolta, karamellur og litla púða sem þær stilltu upp í búðinni sinni. Einnig söfnuðu þær dósum.
Tilgangurinn með öllu þessu var að safna pening fyrir fólk sem þarf á stuðningi að halda. Því var söfnunin gerð í nafni Rauða krossins. Söfnunin gekk gríðarlega vel og færðu þær Rauða krossinum 47.030 krónur – sem er mögulega tombólumet!
Afarnir lögðu sitt af mörkum
Guðný og Salka voru mjög ánægðar með viðtökurnar sem litla búðin þeirra fékk. Þær sögðu að sumir sem komu hefðu ekki haft pening á sér. Þess vegna var snjallt hjá þeim að auglýsa reikningsnúmer sem hægt var að leggja inn á. Aðrir hefðu svo styrkt söfnunina án þess að kaupa nokkuð. Afar þeirra lögðu einnig sitt af mörkum „því þeir eiga alltaf seðla og klink,“ segja þær.
„Við viljum hjálpa öðrum,“ segja vinkonurnar um kveikjuna að því að leggja allt þetta á sig.
Rauði krossinn þakkar Guðnýju og Sölku kærlega fyrir að leggja svona mikið á sig við að safna pening fyrir þau sem á þurfa að halda. Við hvetjum önnur börn eindregið til að feta í þeirra fótspor.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.