Fara á efnissvæði

Almennar fréttir

Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn

03. nóvember 2025

Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.

Guðný Líf Einarsdóttir og Salka Sól Björgvinsdóttir standa vaktina í búðinni sem þær smíðuðu sjálfar.

Guðný Líf Einarsdóttir og Salka Sól Björgvinsdóttir eru hugmyndaríkar níu ára vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi. Þær mættu í höfuðstöðvar Rauða krossins um daginn og færðu félaginu peninga sem þær söfnuðu með frumlegum og skemmtilegum hætti.

Stelpurnar smíðuðu búð, merktu hana í bak og fyrir og seldu vegfarendum ýmislegt, meðal annars eigið handverk á tombólu. Þær saumuðu til dæmis alls konar hluti, svo sem bolta, karamellur og litla púða sem þær stilltu upp í búðinni sinni. Einnig söfnuðu þær dósum.

Tilgangurinn með öllu þessu var að safna pening fyrir fólk sem þarf á stuðningi að halda. Því var söfnunin gerð í nafni Rauða krossins. Söfnunin gekk gríðarlega vel og færðu þær Rauða krossinum 47.030 krónur – sem er mögulega tombólumet!

Afarnir lögðu sitt af mörkum

Guðný og Salka voru mjög ánægðar með viðtökurnar sem litla búðin þeirra fékk. Þær sögðu að sumir sem komu hefðu ekki haft pening á sér. Þess vegna var snjallt hjá þeim að auglýsa reikningsnúmer sem hægt var að leggja inn á. Aðrir hefðu svo styrkt söfnunina án þess að kaupa nokkuð. Afar þeirra lögðu einnig sitt af mörkum „því þeir eiga alltaf seðla og klink,“ segja þær.

„Við viljum hjálpa öðrum,“ segja vinkonurnar um kveikjuna að því að leggja allt þetta á sig.

Rauði krossinn þakkar Guðnýju og Sölku kærlega fyrir að leggja svona mikið á sig við að safna pening fyrir þau sem á þurfa að halda. Við hvetjum önnur börn eindregið til að feta í þeirra fótspor.

Salka og Guðný færðu Rauða krossinum 47.030 krónur sem þær höfðu safnað.