Almennar fréttir
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
03. nóvember 2025
Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.
Guðný Líf Einarsdóttir og Salka Sól Björgvinsdóttir eru hugmyndaríkar níu ára vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi. Þær mættu í höfuðstöðvar Rauða krossins um daginn og færðu félaginu peninga sem þær söfnuðu með frumlegum og skemmtilegum hætti.
Stelpurnar smíðuðu búð, merktu hana í bak og fyrir og seldu vegfarendum ýmislegt, meðal annars eigið handverk á tombólu. Þær saumuðu til dæmis alls konar hluti, svo sem bolta, karamellur og litla púða sem þær stilltu upp í búðinni sinni. Einnig söfnuðu þær dósum.
Tilgangurinn með öllu þessu var að safna pening fyrir fólk sem þarf á stuðningi að halda. Því var söfnunin gerð í nafni Rauða krossins. Söfnunin gekk gríðarlega vel og færðu þær Rauða krossinum 47.030 krónur – sem er mögulega tombólumet!
Afarnir lögðu sitt af mörkum
Guðný og Salka voru mjög ánægðar með viðtökurnar sem litla búðin þeirra fékk. Þær sögðu að sumir sem komu hefðu ekki haft pening á sér. Þess vegna var snjallt hjá þeim að auglýsa reikningsnúmer sem hægt var að leggja inn á. Aðrir hefðu svo styrkt söfnunina án þess að kaupa nokkuð. Afar þeirra lögðu einnig sitt af mörkum „því þeir eiga alltaf seðla og klink,“ segja þær.
„Við viljum hjálpa öðrum,“ segja vinkonurnar um kveikjuna að því að leggja allt þetta á sig.
Rauði krossinn þakkar Guðnýju og Sölku kærlega fyrir að leggja svona mikið á sig við að safna pening fyrir þau sem á þurfa að halda. Við hvetjum önnur börn eindregið til að feta í þeirra fótspor.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.