Almennar fréttir
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
19. desember 2025
Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.
Þrír vinir og bekkjarbræður úr Sjálandsskóla í Garðabæ mættu galvaskir á skrifstofu Rauða krossins nýverið með appelsínugula fötu hálffulla af peningaseðlum og klinki. Þarna var um að ræða fé sem þeir Jóhann Atli Einarsson, Jan Kári Kröyer Jóhannsson og Björn Dagur Óskarsson, allir níu ára, höfðu safnað fyrir Rauða krossinn. Nokkrum vikum áður hafði þessi sama fata verið notuð til að safna í sælgæti á hrekkjavökunni. En nú fannst vinunum kominn tími til að leyfa öðrum að njóta þess sem í fötuna var safnað.
Fénu höfðu þeir safnað með því að ganga í hús í hverfinu sínu. Strákarnir söfnuðu með þeim hætti 10.272 krónum meðal góðra granna sinna og sú upphæð var skilmerkilega afhent Rauða krossinum til ráðstöfunar.
Vinunum er sérstaklega umhugað um að söfnunarféð nýtist börnum sem líði illa, „börnum sem þurfa aðstoð,“ sögðu þeir alvörugefnir. „Eða bara til þeirra sem þurfa mesta hjálp.“
Rauði krossinn þakkar þeim Jóhanni Atla, Jani Kára og Birni Degi hjartanlega fyrir stuðninginn og mun sjá til þess að söfnunarféð nýtist til góðra verkefna félagsins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.
Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra
Innanlandsstarf 05. desember 2025„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.