Almennar fréttir
Stefnt að söfnum á mat fyrir 20 þúsund börn í Jemen í heilan mánuð
19. desember 2018
Á föstudaginn lýkur neyðarsöfnun Rauða krossins vegna hungursneyðar í Jemen. Söfnunin hefur gengið vel og safnast hefur upphæð sem dugar fyrir mat fyrir 14 þúsund börn í Jemen í heilan mánuð.
Á föstudaginn lýkur neyðarsöfnun Rauða krossins vegna hungursneyðar í Jemen. Söfnunin hefur gengið vel og safnast hefur upphæð sem dugar fyrir mat fyrir 14 þúsund börn í Jemen í heilan mánuð. Stefnan hefur verið sett enn hærra og er nú stefnt að því að safna mat fyrir 20 þúsund börn sem jafngildir tæplega þriðjungi barna á Íslandi undir 14 ára aldri.
Eins og fram kom í viðtali Atla Viðars Thorstensen, sviðsstjóra hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins, í Kastljósinu þá var í síðustu viku samþykkt vopnahlé stríðandi fylkinga í hafnarborginni Hodeida. Vopnahlé í borginni er sérstaklega mikilvægt því stærstur hluti matar og hjálpargagna fer þar í gegnum. Vopnahlé tók gildi á miðnætti mánudaginn 17. desember sl. (kl. 21:00 að íslenskum tíma). Eftir að vopnahlé tók gildi hefur dregið úr átökum á svæðinu og eru vonir bundnar við að hægt verði að koma bráðnauðsynlegum hjálpargögnum inn í landið en talið er að um 20 milljónir Jemena þurfi á aðstoð að halda. Hægt er að nálgast viðtalið hér.
Þá hefur Rauði krossinn ásamt öðrum hjálparsamtökum haft milligöngu um lausn Jemena sem haldið var í gíslingu vegna átakanna. Talið er að þúsundir Jemena sé haldið í gíslingu og hefur náðst samkomulag milli stríðandi fylkinga að sleppa gíslunum. Tekur þá við brýnt starf hjálparstofnana við að sameina börn og fjölskyldur sem hafa orðið viðskila á átakasvæðum líkt og fram kemur í myndbandi Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) sem Rauði krossinn á Íslandi hefur fengið að þýða og birta. Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir neðan.
Enn er hægt að styrkja hjálparstarf Rauða kross hreyfingarinnar í Jemen um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649. Sú upphæð dugar til þess að þrjú börn í Jemen fái mat í einn mánuð.
https://www.youtube.com/watch?v=p65bjs_GAzI
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.