Almennar fréttir
Stefnumót við palestínska sálfræðinga í Norræna húsinu
23. september 2025
Rauði krossinn stendur ásamt Reykjavíkurborg fyrir viðburði í Norræna húsinu undir yfirskriftinni „Áföll, seigla og menning: Stuðningur við fólk á flótta frá Palestínu og öðrum átakasvæðum“.
Tveir sálfræðingar frá Palestínu munu halda fyrirlestur í Norræna húsinu á morgun, miðvikudaginn 24. september, á viðburði sem Rauði krossinn á Íslandi og Reykjavíkurborg hafa skipulagt. Viðburðurinn mun standa milli kl. 14 og 16 og er sérstaklega ætlaður öllum þeim sem starfa hér á landi við að styðja fólk á flótta frá Palestínu og öðrum átakasvæðum.
Flótti, átök og áföll móta ekki aðeins líf einstaklinga heldur heilu samfélögin. Það er von Rauða krossins að viðburðurinn verði vettvangur til að dýpka skilning á slíkri reynslu og vekja fólk til umhugsunar um hvernig megi betur styðja þau sem búa við afleiðingar stríðs og hafa þurft að flýja heimkynni sín. Sérstök áhersla verður lögð á reynslu fólks frá Palestínu.
Sálfræðingarnir dr. Fathy Dar Youssef og Despina Costandinides, sem bæði eru nú búsett á Vesturbakkanum í Palestínu, munu miðla af faglegri sérþekkingu sinni og einnig af persónulegri reynslu. Í erindum sínum munu þau m.a. fjalla um áhrif áfalla, átaka og flótta á andlega heilsu og daglegt líf, reynslu og menningu Palestínufólks á flótta og hvernig einstaklingar og samfélög sýna seiglu, jafnvel í viðvarandi neyð.
Dagskráin fer fram á ensku og samanstendur af um klukkustundar löngum fyrirlestrum sálfræðinganna og klukkustund af spurningum og svörum í kjölfarið.
Viðburðurinn er öllum opinn og verður einnig streymt á netinu.
Pláss í Norræna húsinu er takmarkað og við biðjum þau sem vilja mæta á staðinn að skrá sig hér.
Viðburðurinn er skipulagður af Rauða krossinum á Íslandi og Reykjavíkurborg, með fjárhagslegum stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ og embætti ríkislögreglustjóra.
Skoða viðburðinn á Facebook hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.
Úr fjárhúsi í fataflokkun: Stoltur af því að vera sjálfboðaliði
Innanlandsstarf 22. desember 2025„Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér tilbreytingu í amstri dagsins auk þess góða félagsskapar sem ég hef notið í vinnunni þessi ár,“ segir Lárus Sigurðsson, sjálfboðaliði í fataverkefni Rauða krossins á Akureyri. Tilviljun réði því að hann hóf þar störf.
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
Almennar fréttir 19. desember 2025Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.