Almennar fréttir
Stefnumót við palestínska sálfræðinga í Norræna húsinu
23. september 2025
Rauði krossinn stendur ásamt Reykjavíkurborg fyrir viðburði í Norræna húsinu undir yfirskriftinni „Áföll, seigla og menning: Stuðningur við fólk á flótta frá Palestínu og öðrum átakasvæðum“.

Tveir sálfræðingar frá Palestínu munu halda fyrirlestur í Norræna húsinu á morgun, miðvikudaginn 24. september, á viðburði sem Rauði krossinn á Íslandi og Reykjavíkurborg hafa skipulagt. Viðburðurinn mun standa milli kl. 14 og 16 og er sérstaklega ætlaður öllum þeim sem starfa hér á landi við að styðja fólk á flótta frá Palestínu og öðrum átakasvæðum.
Flótti, átök og áföll móta ekki aðeins líf einstaklinga heldur heilu samfélögin. Það er von Rauða krossins að viðburðurinn verði vettvangur til að dýpka skilning á slíkri reynslu og vekja fólk til umhugsunar um hvernig megi betur styðja þau sem búa við afleiðingar stríðs og hafa þurft að flýja heimkynni sín. Sérstök áhersla verður lögð á reynslu fólks frá Palestínu.
Sálfræðingarnir dr. Fathy Dar Youssef og Despina Costandinides, sem bæði eru nú búsett á Vesturbakkanum í Palestínu, munu miðla af faglegri sérþekkingu sinni og einnig af persónulegri reynslu. Í erindum sínum munu þau m.a. fjalla um áhrif áfalla, átaka og flótta á andlega heilsu og daglegt líf, reynslu og menningu Palestínufólks á flótta og hvernig einstaklingar og samfélög sýna seiglu, jafnvel í viðvarandi neyð.
Dagskráin fer fram á ensku og samanstendur af um klukkustundar löngum fyrirlestrum sálfræðinganna og klukkustund af spurningum og svörum í kjölfarið.
Viðburðurinn er öllum opinn og verður einnig streymt á netinu.
Pláss í Norræna húsinu er takmarkað og við biðjum þau sem vilja mæta á staðinn að skrá sig hér.
Viðburðurinn er skipulagður af Rauða krossinum á Íslandi og Reykjavíkurborg, með fjárhagslegum stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ og embætti ríkislögreglustjóra.
Skoða viðburðinn á Facebook hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.

Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.