Almennar fréttir
Stjórnarfundur hjá Alþjóðasambandi Rauða krossins
17. maí 2023
Stjórnarfundur Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans var haldinn í seinustu viku. Þar áttum við Íslendingar okkar fulltrúa, en Ragna Árnadóttir er hluti af stjórninni og verður það til ársins 2026.
Stjórnarfundur Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) fór fram í höfuðstöðvum sambandsins í Genf dagana 8.-11. maí síðastliðinn. Stjórnarfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar sinnum á ári og þessi var sá 47. frá stofnun Alþjóðasambandsins.
Rauði krossinn á Íslandi hlaut kjör í stjórn sambandsins á aðalfundi þess hinn 19. júní 2022 og var fulltrúi okkar, Ragna Árnadóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum um árabil og fyrrverandi varaformaður félagsins, viðstödd fundinn. Hún situr í stjórninni sem almennur stjórnarmaður og sjálfboðaliði til ársins 2026, en hefur jafnframt verið skipuð í sérstakan starfshóp innan stjórnarinnar um góða stjórnarhætti.
Á fundinum ræddi stjórnin meðal annars um verkefni og starf félagsins síðan á síðasta fundi í október síðastliðnum, þar á meðal starf hreyfingarinnar vegna átakanna í Úkraínu, jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi og átakanna í Súdan. Þá fjallaði stjórnin um áherslur félagsins hvað varðar samvinnu á alþjóðavettvangi í þágu mannúðar sem og heilbrigði í víðum skilningi í kjölfar heimsfaraldurs.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.