Almennar fréttir
Sunna Ósk ráðin upplýsingafulltrúi
10. mars 2025
„Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en sjaldan verið veigameira en einmitt núna,“ segir Sunna Ósk Logadóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi.
Sunna Ósk Logadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hún hefur þegar tekið til starfa.
Sunna er landfræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af starfi í fjölmiðlum. Hún var blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu og mbl.is í tvo áratugi, blaðamaður á Kjarnanum í tvö ár og nú síðast á Heimildinni í önnur tvö.
Í skrifum sínum hefur hún m.a. lagt áherslu á mannúðar- og umhverfismál og hefur í fjórgang hlotið Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjallanir sínar.
„Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að því í heila öld að bæta líf fólks í viðkvæmri stöðu, bæði hér heima og erlendis,“ segir Sunna. „Félagið hefur alla tíð átt sérstakan stað í hjarta mínu, rétt eins og líklega flestra Íslendinga. Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en hefur sjaldan verið veigameira en einmitt núna. Þess vegna ákvað ég að tímabært væri að venda mínu kvæði í kross og ganga til liðs við þá mögnuðu hreyfingu sem Rauði krossinn er.“
Að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, teymisstjóra fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins, er ráðning Sunnu mikill happafengur fyrir félagið. „Hún hefur víðtæka reynslu af miðlun upplýsinga og mikla reynslu af vinnu við fjölmiðla sem mun styrkja starf okkar enn frekar. Við hlökkum til samstarfsins og erum viss um að hún muni verða mikilvægur liðsmaður í því að efla sýnileika og skilaboð Rauða krossins í samfélaginu.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.