Almennar fréttir
Það gilda lög í stríði
02. mars 2022
Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnur ötullega að því að minna yfirvöld, hermenn, uppreisnarmenn og aðra stríðandi aðila á Genfarsamningana, þ.e. þau lög sem gilda í stríði og þá sérstaklega á mikilvægi þess að vernda almenna borgara.
Fæst okkar muna eftir vopnuðum átökum jafn nálægt okkur og nú og sjaldan eða aldrei hefur verið jafn auðvelt að setja sig í spor flóttafólks og þegar þúsundir manna flýja heimili sín í Úkraínu.
Fréttir eru sagðar af óbreyttum borgurum sem falla, að sprengjur hafi fallið á skóla eða leikskóla og að innviðir á borð við rafmagnslínur, vatnsleiðslur, vegi og internet séu eyðilagðir. Allt undantalið er verndað af alþjóðlegum mannúðarlögum, Genfarsamningunum og þremur viðbótarbókunum við þá, en Alþjóðaráð Rauða krossins er verndari þeirra.
Í samningunum eru ákvæði sem veita Rauða krossinum víðtækt hlutverk við að vernda og aðstoða þolendur stríðsátaka. Rauði krossinn fræðir stríðandi fylkingar um Genfarsamningana og fylgist með því að þeir séu virtir.
Grundvallaratriði Genfarsamninganna eru:
- Allir sem hafa lagt niður vopn eiga rétt á vernd.
- Fangar njóta verndar.
- Þeir sem sinna hjálpastarfi njóta verndar.
- Ekki má ráðast á eignir óbreyttra borgara.
- Ekki má valda þarflausri eyðileggingu eða þjáningum.
Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnur ötullega að því að minna yfirvöld, hermenn, uppreisnarmenn og aðra stríðandi aðila á Genfarsamningana, þ.e. þau lög sem gilda í stríði og þá sérstaklega á mikilvægi þess að vernda almenna borgara.
Með undirritun Genfarsamninganna hafa ríki heims skuldbundið sig til þess að takmarka stríðsrekstur á ýmsan hátt og hlífa þeim sem ekki taka beinan þátt í ófriði. Genfarsamningarnir veita vernd í vopnuðum átökum og eru hornsteinn alþjóðlegs mannúðarréttar. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna auk Vatíkansins, Palestínu og Cookseyja, hafa fullgilt samninganna og fjölmörg ríki hafa fullgilt viðauka við þá.
Rauða kross hreyfingin hefur einnig beitt sér fyrir algjöru banni og útrýmingu kjarnorkuvopna allt frá árinu 1945. Hér má lesa grein Sveins Kristinssonar, formanns Rauða krossins á Íslandi, frá árinu 2019 um að íslensk stjórnvöld skrifi undir og fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum en íslensk stjórnvöld hafa enn ekki skrifað undir þennan samning.
Ljóst er að mannúðarlög eru oft brotin í stríðsátökum – en þeim er líka mjög oft fylgt. Það þykir ekki fréttnæmt ef menningarverðmætum, skólum eða óbreyttum borgurum er þyrmt. Genfarsamningarnir ásamt hlutleysi sínu gera Rauða krossinum kleift að starfa á átakasvæðum, í Úkraínu sem og annars staðar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.