Almennar fréttir
Vegna nýrrar reglugerðar um dvöl í sóttkví
08. apríl 2021
Fyrr í kvöld birtust á vef stjórnarráðsins upplýsingar um breytt skilyrði um dvöl í sóttkví og ný reglugerð þar að lútandi sem taka á gildi á miðnætti. Rauði krossinn var ekki upplýstur um nýja reglugerð fyrr en við birtingu hennar og vinna fulltrúar félagsins nú að yfirferð og túlkun nýrra reglna.
\r\n
Fyrr í kvöld birtust á vef stjórnarráðsins upplýsingar um breytt skilyrði um dvöl í sóttkví og ný reglugerð þar að lútandi sem taka á gildi á miðnætti. Rauði krossinn, sem haft hefur umsjón með farsóttar- og sóttvarnarhúsum fyrir hönd stjórnvalda undanfarið ár, var ekki upplýstur um nýja reglugerð fyrr en við birtingu hennar og vinna fulltrúar félagsins nú að yfirferð og túlkun nýrra reglna.
Það er ljóst að reglugerðin boðar miklar breytingar hvað varðar sóttvarnarhús fyrir ferðafólk, eða svokölluð sóttkvíarhótel, en hún kveður m.a. á um að öllu ferðafólki bjóðist endurgjaldslaus dvöl á sóttkvíarhóteli óháð hvaðan það kemur og að gestir sóttkvíarhótela geti notið útivistar.
Það er mat Rauða krossins að ný reglugerð setji sóttvarnir og góðan árangur í sóttvarnarhúsum í uppnám og lýsa fulltrúar félagsins yfir verulegum áhyggjum af því.
Á undanförnu ári hefur starfsfólk Rauða krossins öðlast mikla reynslu af sóttvörnum og þjónustu við einstaklinga í sóttkví og einangrun. Lykilatriðið í að tryggja öryggi allra þeirra sem dvelja á sóttkvíarhóteli hverju sinni er að lágmarka umgang gesta um sameiginleg svæði eins og fremst er unnt. Þegar umgangur er nauðsynlegur, til dæmis við innritun, sýnatöku og útskrift, er nauðsynlegt að sótthreinsa sameiginleg svæði og alla snertifleti.
Á þeirri viku sem liðin er frá opnun sóttkvíarhótelsins við Þórunnartún hafa nokkur smit greinst á meðal gesta þess. Hefði sóttvörnum hússins verið ábótavant eða samgangur verið á milli gesta, er ljóst að þessi smit hefðu hæglega getað leitt til hópsýkingar. Slíkt hefði getað sett hluta starfsfólks hótelsins í sóttkví og orðið til þess að lengja sóttkví annarra gesta, en einungis örfáir framlínustarfsmenn Rauða krossins hafa hlotið bólusetningu.
Rauði krossinn tekur af heilum hug undir mikilvægi þess að einstaklingar í sóttkví fái að njóta útiveru eins og frekast er unnt og hefur sýnt gagnrýni því tengdri skilning. En með ofangreint í huga, auk þess skamma undirbúningstíma sem reglugerðin gefur, er það mat Rauða krossins að ekki sé gerlegt að tryggja útiveru gesta og sérstakan aðbúnað fyrir börn á sóttkvíarhóteli – líkt og ný reglugerð boðar – nema á kostnað sóttvarna og þar með öryggis gesta sóttkvíarhótelsins.
Rauði krossinn bindur vonir við að tillit verði tekið til þessara áhyggjuefna enda er það einlægur vilji Rauða krossins að veita stjórnvöldum og samfélaginu öllu áframhaldandi aðstoð á þessum viðsjárverðu tímum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
Almennar fréttir 19. desember 2025Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.