Fara á efnissvæði

Almennar fréttir

„Við höfum öll eitthvað fram að færa“

02. september 2025

„Menntun er lykillinn að framtíðinni,“ segir Hadia Rahman, nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, sem flúði hingað ásamt fjölskyldu sinni frá Afganistan í árslok 2021.

„Við vorum sextán í fjölskyldunni sem náðum að flýja,“ segir Hadia. „Fórum fyrst til Katar, svo til Ítalíu. Svo til Kosovo. Þar fengum við að vita að ríkisstjórnin á Íslandi vildi bjóða okkur vernd.“ Mynd: SÓL

„Líf okkar var gott. Ég var í háskóla í Kabúl og mér gekk vel. Við hefðum aldrei getað trúað því að talíbanar ættu eftir að taka völdin. En svo gerðist það. Einn daginn breyttist allt.“

Á þessum orðum hóf Hadia Rahman erindi sitt um flóttann frá Afganistan og líf fjölskyldunnar á Íslandi á málþingi Rauða krossins, UNICEF og Barna- og fjölskyldustofu um börn á flótta í Norræna húsinu 28. ágúst síðastliðinn. Hadia flutti erindið á íslensku. Hægt er að horfa og/eða hlusta á það hér.

„Við urðum mjög hrædd,“ hélt hún áfram um hina afdrifaríku daga í Afganistan haustið 2021. „Við vorum í lífshættu vegna þess að pabbi var markaðs lögfræðingur milli NATO og Bandaríkjahers. Þess vegna urðum við að flýja strax. Við gerðum þrjár tilraunir til að komast með flugvél í burtu. Í þeirri síðustu tókst okkur það. Það var hræðilegt ástand á flugvellinum. Vegna mikils mannfjölda týndust systir mín og eiginmaður hennar og gátu ekki komið með okkur inn á flugvöllinn. Annars vegar vorum við glöð að geta loksins komist inn á flugvöllinn en hins vegar vorum við öll áhyggjufull út af systur minni. Hún er enn í Afganistan með eiginmanni sínum og tveimur börnum sínum.

Þúsundir flúðu frá Afganistan seinni hluta árs 2021. Að minnsta kosti hálf milljón manna lenti á vergangi innan Afganistans. Mynd: Alþjóðasamband Rauða krossins

„Við vorum sextán í fjölskyldunni sem náðum að flýja,“ sagði Hadia svo. „Fórum fyrst til Katar, svo til Ítalíu. Svo til Kosovo. Þar fengum við að vita að ríkisstjórnin á Íslandi vildi bjóða okkur vernd. Við vissum lítið um Ísland. Okkur var sagt að þar væri kalt – en besti staður í heimi til að ala upp börn.

Í lok nóvember 2021 vorum við komin til Íslands. Ég, yngri systkini mín, foreldrar mínir, amma mín og frænkur. Það var vetur og mjög dimmt. Við vorum að fara að byrja alveg upp á nýtt. Í nýju landi, í nýju húsnæði og læra nýtt tungumál sem er mjög ólíkt móðurmáli okkar. Við áttum ekki bíl og þekktum engan. Það var erfitt fyrir okkur öll en mest fyrir mömmu og ömmu. Í Afganistan var heimilið alltaf fullt af gestum. Fullt af lífi! En hér sáum við ekki einu sinni fólk úti á götu. Við fundum fyrir einangrun í fyrstu.

Ég byrjaði eins fljótt og ég gat að læra íslensku. Ég vildi vinna og ég vildi fara í háskóla. Íslenska er ekki auðvelt tungumál. En ég sagði við fjölskylduna mína: Það er erfitt en ekki ómögulegt að læra íslensku. Þegar maður býr á Íslandi er nauðsynlegt að læra íslensku. Ég lagði mig alla fram. Strax í janúar árið 2022 var ég byrjuð í námi í MMS. Fyrst var ég bara að læra íslensku en svo fór ég í félagsvísinda- og lagadeild hjá Keili. Þar fékk ég mjög mikla hvatningu og stuðning. Kennararnir trúðu á mig og það skiptir mjög miklu máli fyrir mig.

Ég reyndi líka að finna vinnu. Reyndi og reyndi. En ekkert gekk þar til að einn kennarinn minn hjálpaði mér. Ég fór að vinna hjá fyrirtæki sem ég vann svo hjá í tvö ár. Allan tímann hélt ég áfram að læra íslensku.“

Hadia í viðtali við RÚV í tengslum við málþing Rauða krossins, UNICEF og Barna- og fjölskyldustofu um börn á flótta. Mynd: SÓL

Hadia heldur áfram frásögninni: „Pabbi minn og bræður mínir fundu ekki heldur vinnu strax. Loksins fékk pabbi vinnu á bílaþvottastöð. Hann vann á næturnar, vann langar vaktir. En samt voru launin hans ekki nóg fyrir fjölskylduna. Það er dýrt að búa á Íslandi og það er ekki nóg að einn sé að vinna fyrir fjölskyldunni eins og í Afganistan.

Amma fékk krabbamein og dó á síðasta ári. Sex mánuðum eftir að hún dó varð pabbi veikur. Hann fór á spítalann og fékk að vita að hann væri með krabbamein. Það var mikið sjokk fyrir okkur öll. Hann þurfti að fara í lyfjameðferð og skurðaðgerð. Núna líður honum betur og vonandi getur hann bráðum farið að vinna aftur. Til þess að eiga möguleika á að fá betri laun er hann að taka meiraprófið.

Menntun er lykillinn að framtíðinni. Í fyrrahaust byrjaði ég í lögfræði í Háskóla Íslands. Mér hafði gengið mjög vel í undirbúningsnáminu í Keili. En eftir nokkrar vikur fann ég að ég var ekki tilbúin í lögfræðina vegna tungumálsins og nokkurra annarra vandamála. Ég ákvað að skipta yfir í viðskiptafræði. En fyrst þurfti ég að fara aftur í sex mánuði í Keili. Ég hélt áfram að vinna með skóla þangað til núna í haust þegar ég byrjaði í viðskiptafræðinni.

Ég tek strætó á hverjum morgni frá Ásbrú og í Háskóla Íslands. Ég nota allan tíma sem ég hef til að læra. Ég læri áður en ég fer af stað í skólann. Ég læri í strætó. Ég læri eftir skóla og langt fram á kvöld. Að fá vinnu hefur líka verið mjög erfitt. Á Íslandi fær fólk vinnu í gegnum tengslanet. Við vorum ekki með neitt tengslanet.

En nú er þetta net að byrja að verða til. Til dæmis er ein kona sem ég kynntist í Keili með mér í viðskiptafræðinni. Hún hefur aðstoðað mig. Yfirmaðurinn í fyrirtækinu sem ég vann hjá gaf bræðrum mínum tækifæri af því að hann þekkti mig og vissi að ég væri góður starfsmaður.

Okkur fannst óþægilegt að fá peninga frá ríkinu þegar við komum hingað fyrst. Við vildum vera sjálfstæð. Við gerðum allt sem við gátum til að verða sjálfstæð sem fyrst. Við erum ennþá að gera allt sem við getum til að byggja upp lífið okkar á Íslandi. Við vitum að til þess að ná árangri þarf maður að leggja mikið á sig. Við viljum leggja okkar af mörkum til að gera samfélagið hér ennþá betra.“

Hadia: „Það er gott að vera á Íslandi. Hér er fríðsælt og rólegt en ég get ekki sagt að lífið sé auðvelt fyrir okkur. En að minnsta kosti erum við örugg hér. Við höfum rekið okkur á veggi, sérstaklega fyrst, en við höfum lagt okkur fram við að leysa öll vandamál.“

Hadia segir skrítið að hugsa um lífið sem fjölskyldan átti í Afganistan. „Það er skrítið að hugsa til þess hvernig allt hefur breyst þar. Og það er erfitt að hugsa til þess að systir mín, sem átti að koma með okkur til Íslands, er þar ennþá.

Það er erfitt að vera bæði að læra nýtt tungumál og nýtt fag í háskólanum. Ég viðurkenni að ég er oft þreytt í höfðinu þegar ég leggst á koddann á kvöldin. En ég ætla. Ég ætla að mennta mig svo ég eigi bjarta framtíð.

Það er gott að vera á Íslandi. Hér er fríðsælt og rólegt en ég get ekki sagt að lífið sé auðvelt fyrir okkur. En að minnsta kosti erum við örugg hér. Við höfum rekið okkur á veggi, sérstaklega fyrst, en við höfum lagt okkur fram við að leysa öll vandamál.

Ég trúi því að við séum öll jöfn. Að allir eigi rétt á jöfnum tækifærum. Ég trúi fyrst og fremst á mannúð. Í mínum huga skiptir ekki máli hvernig við lítum út, hvernig við klæðum okkur eða hvaðan við komum. Við erum öll eins. Við höfum öll eitthvað fram að færa.“

Hér að neðan getur þú horft á málþingið um börn á flótta. Erindi Hadiu er það fyrsta á dagskrá.