Almennar fréttir
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
29. október 2025
Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Gestir Kópavogslaugar höfðu úr ýmsu að velja á tombólunni sem vinir Kristófer Ahrens Þorsteinsson, Bergur Leó Zak Birkisson og Orri Daníelsson stóðu þar nýverið fyrir. Drengirnir, sem eru allir níu ára, höfðu gengið í hús í nágrenninu og óskað eftir gefins hlutum á tombóluna. Í þá beiðni var vel tekið og þegar uppi var staðið höfðu þeir safnað 8.571 krónu. Tombóluna héldu þeir til að safna fé fyrir Rauða krossinn. „Við viljum hjálpa börnum sem eiga erfitt,“ segir Kristófer. „Við hugsuðum: Við eigum alveg nóg til að líða vel en sumum börnum líður illa. Svo við ákváðum að hjálpa börnum... og bara öllum.“
Strákarnir segja að gestir Kópavogslaugar hafi verið tilbúnir að leggja söfnuninni lið en að sumir hafi ekki haft neitt klink á sér. „Við vorum spurðir hvort við værum með posa en við eigum ekki svoleiðis,“ segir Bergur.
Vinirnir eru allir í 4. bekk í Barnaskóla Kársness sem er nýr skóli í Kópavogi. Þeir segjast kunna vel við sig.
„Okkur langar að safna aftur fyrir Rauða krossinn,“ segir Orri. Allir segjast þeir eiga nóg af leikföngum og öðru og mögulega hafi þeir næst tombólu með sínu eigin dóti.
Rauði krossinn þakkar þeim Kristófer, Bergi og Orra kærlega fyrir að leggja mannúðinni lið og hvetur aðra til að taka sér þá til fyrirmyndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.