Almennar fréttir
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
29. október 2025
Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Gestir Kópavogslaugar höfðu úr ýmsu að velja á tombólunni sem vinir Kristófer Ahrens Þorsteinsson, Bergur Leó Zak Birkisson og Orri Daníelsson stóðu þar nýverið fyrir. Drengirnir, sem eru allir níu ára, höfðu gengið í hús í nágrenninu og óskað eftir gefins hlutum á tombóluna. Í þá beiðni var vel tekið og þegar uppi var staðið höfðu þeir safnað 8.571 krónu. Tombóluna héldu þeir til að safna fé fyrir Rauða krossinn. „Við viljum hjálpa börnum sem eiga erfitt,“ segir Kristófer. „Við hugsuðum: Við eigum alveg nóg til að líða vel en sumum börnum líður illa. Svo við ákváðum að hjálpa börnum... og bara öllum.“
Strákarnir segja að gestir Kópavogslaugar hafi verið tilbúnir að leggja söfnuninni lið en að sumir hafi ekki haft neitt klink á sér. „Við vorum spurðir hvort við værum með posa en við eigum ekki svoleiðis,“ segir Bergur.
Vinirnir eru allir í 4. bekk í Barnaskóla Kársness sem er nýr skóli í Kópavogi. Þeir segjast kunna vel við sig.
„Okkur langar að safna aftur fyrir Rauða krossinn,“ segir Orri. Allir segjast þeir eiga nóg af leikföngum og öðru og mögulega hafi þeir næst tombólu með sínu eigin dóti.
Rauði krossinn þakkar þeim Kristófer, Bergi og Orra kærlega fyrir að leggja mannúðinni lið og hvetur aðra til að taka sér þá til fyrirmyndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.