Almennar fréttir
Útkall á Keflavíkurflugvelli
26. júlí 2022
Viðbragðshópur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu var kallaður út í gær vegna flugvélar á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum en var snúið við yfir Grænlandi vegna sprengjuhótunar. Þegar vélin lenti í Keflavík var hún rýmd og allir farþegar fluttir á lokað svæði á flugvellinum. Um borð í vélinni voru 266 farþegar.
Viðbragðshópur Rauða krossins lagði af stað frá höfuðborgarsvæðinu um kl 19:00 í gærkveldi áleiðis til Keflavíkurflugvallar. Einnig mætti viðbragshópur Rauða krossins á Suðurnesjum.
Rauði krossinn sinnti verkefnum í flugstöðinni í u.þ.b. fimm klukkustundir, veitti farþegum sálrænan stuðning, aðstoðaði við matarúthlutanir og upplýsingagjöf til farþega. Á mynd sem fylgir fréttinni má sjá hluta af viðbragðshópi Rauða krossins er sinnti verkefnum í flugstöðinni. Frá vinstri eru þær Elva Hlín, Erna María, Silja Dögg, Guðbjörg María, Anna Sigríður og Bergþóra Halla.
Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka öllum Mannvinum Rauða krossins fyrir stuðninginn. Stuðningur Mannvina gerir starf viðbragðshópa okkar mögulegt.
Hægt er að gerast Mannvinur hér.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Maður gefur af sér en fær svo mikið til baka“
Innanlandsstarf 05. ágúst 2025Notendur Frú Ragnheiðar tóku Írisi Ósk Ólafsdóttur strax vel er hún hóf þar sjálfboðaliðastörf. „Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli,“ segir Íris.

Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.