Innanlandsstarf
Efla seiglu með fræðslu og stuðningi
28. mars 2025
Styrkur frá Rio Tinto hefur gert Rauða krossinum kleift að veita Grindvíkingum margvíslegan félagslegan stuðning á erfiðum tímum. Áfram verður haldið að styðja við þá og aðra íbúa á Suðurnesjum.
Rauði krossinn á Íslandi fékk á síðasta ári veglegan styrk frá Rio Tinto til að styðja við Grindvíkinga með margskonar félagslegum verkefnum og til að efla viðnámsþrótt fólks á Suðurnesjum öllum. Vegna styrksins hefur Rauði krossinn getað veitt fólki frá Grindavík fjölbreyttan stuðning. Sem dæmi hefur börnum og ungmennum boðist að fara á sjálfstyrkingarnámskeið, í sumardvöl, að sækja félagsstarf og útilífsnámskeið. Þá hafa foreldrar og börn fengið fræðslu um áföll og eldri borgarar og viðkvæmir hópar farið í sumardvöl, sótt vikulegar samverustundir og fengið fræðslu um stuðning, áföll og vinaverkefni Rauða krossins.
Styrkur Rio Tinto hefur einnig verið og verður áfram nýttur til verkefna sem miða að því að efla seiglu fólks og búa íbúa á öllum Suðurnesjum undir neyðarástand. Þjálfun sjálfboðaliða Rauða krossins á Suðurnesjum er enn fremur mikilvægur þáttur í verkefninu og hafa þeir m.a. fengið fræðslu um rekstur fjöldahjálparstöðva, skráningu þolenda í rýmingum og í að veita sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Viðnámsþróttur fólks á Suðurnesjum verður í brennidepli hjá Rauða krossinum á næstunni í tengslum við verkefnið 3dagar.is. Markmiðið er að undirbúa fólk fyrir neyðarástand svo það geti verið sjálfbjarga á heimilum sínum í þrjá daga. Mun styrkur Rio Tinto nýtast vel til þessa verkefnis, sem felur m.a. í sér fræðslu í formi myndbanda og námskeiða.
„Ef hamfarir dynja yfir getur breytt miklu að vera vel undirbúin,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac sem fer fyrir verkefninu Viðnámsþróttur á Suðurnesjum. Hún rifjar upp að í febrúar á síðasta ári hafi hiti farið af öllum húsum á Reykjanesi vegna jarðhræringa við Svartsengi. Tímabundin ringulreið hafi skapast. „Sá atburður sýndi okkur svart á hvítu hversu mikilvægt er að vera undirbúin, sérstaklega á Íslandi – eyju úti í miðju Atlantshafi þar sem náttúruhamfarir eru þekktar.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólk á Gaza sárbiður um hjálp
Alþjóðastarf 19. maí 2025Aukinn þungi hefur færst í hernaðaraðgerðir á Gaza síðustu daga og hundruð almennra borgara, sem skulu njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, verið drepin. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Við verðum að brýna raustina“
Almennar fréttir 13. maí 2025„Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst.“

Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.