Innanlandsstarf
„Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu“
02. júlí 2025
Að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum hefur þroskað Ingibjörgu Ástu Bjarnadóttur bæði persónulega og í starfi. „Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika.“
Er Ingibjörg Ásta Bjarnadóttir lauk meistaranámi í alþjóðaviðskiptum í Istanbúl í Tyrklandi árið 2019 vildi hún kynnast starfsemi félagasamtaka og sjá hvort að hún sæi fyrir sér að vinna við mannúðarmál í framtíðinni. Hún ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og hefur því nú þegar öðlast mikla reynslu af slíkum störfum. „Ég vildi læra að takast á við fjölbreytt verkefni og auka færni í að vinna með fjölbreyttum hópi fólks, lærdómur sem reyndist virkilega dýrmætur áður en ég hélt út á vinnumarkaðinn,“ segir hún um ástæðu þess að hún ákvað að gerast sjálfboðaliði. „Sömuleiðis hef ég brennandi áhuga á málefnum flóttafólks og innflytjenda og vildi leggja mitt að mörkum til að bæta stöðu þeirra í samfélaginu.“
Ingibjörg er 29 ára og starfar sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Verna. Hún er upprunalega úr Keflavík en er nú búsett í Reykjavík.
Áður en hún hóf sjálfboðaliðastörf fyrir Rauða krossinn sótti hún námskeið í sálrænum stuðningi og fyrstu hjálp. Þar að auki fékk hún að eigin sögn frábæra leiðsögn frá teymisstjóra hjá félaginu sem kenndi henni að nálgast viðkvæma hópa af virðingu og skilningi.
Árið 2019 tók Ingibjörg þátt í verkefninu Youth Club þar sem hópur sjálfboðaliða skipulagði og hélt viðburði með ungu flóttafólki og innflytjendum. Hún kynnti verkefnið síðar í Litháen og þar myndaðist samstarf við önnur félagasamtök sem leiddi af sér samstarfsverkefnið Pathways to Integration. Það verkefni stóð yfir í eitt ár og náði til 70 þátttakenda frá 25 löndum.
„Markmið verkefnisins var að efla ungt fólk sem er með flóttamanna- eða innflytjendabakgrunn með því að gefa því rými og tíma til að segja sínar skoðanir, deila reynslusögum, og finna saman lausnir á sameiginlegum vandamálum,“ segir Ingibjörg. „Við héldum vinnustofur á Íslandi, í Finnlandi og Austurríki, og fengu þátttakendur tækifæri til að ferðast til þessara landa.“
Í apríl á síðasta ári var hún svo kjörin í aðalstjórn Rauða krossins á Íslandi. „Þar vinn ég nú að því að efla ungmennastarf innan félagsins. Við erum að stofna ungmennahóp Rauða krossins sem mun leiða og styðja við aukna þátttöku ungs fólks.“
Í sjálfboðaliðastarfinu hefur Ingibjörg m.a. lært mikið hvað varðar verkefnastjórnun, samskipti, teymisvinnu, gagnrýna hugsun, menningarlæsi og frumkvæði. „Ég hef fengið tækifæri til að ferðast á ráðstefnur erlendis og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum sem hafa þroskað mig bæði persónulega og í starfi. Ég hef líka eignast mikið af dýrmætum vinum og fengið að kynnast mismunandi menningarheimum, reynsla sem ég mun alltaf búa að.“
Hún segir það hafa komið sér á óvart að ekki sé meira framboð af verkefnum fyrir sjálfboðaliða undir 18 ára aldri á Íslandi. „Ég held að margir á menntaskólaaldri geri sér ekki grein fyrir hversu mikils virði slík reynsla getur verið. Víða erlendis skiptir reynsla af sjálfboðaliðastarfi sköpum þegar sótt er um skóla eða störf. Ég hefði viljað byrja fyrr að sinna sjálfboðaliðastörfum þar sem það er svo gríðarlega þroskandi.“
Ingibjörg mælir hiklaust með því að verða sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það er klárlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika. Ég hef fengið tækifæri til að ferðast og kynnast nýju fólki og öðlast reynslu sem er ómetanleg.“
Hér getur þú kynnt þér sjálfboðaliðastörf hjá Rauða krossinum og lesið um þau verkefni sem félagið starfrækir.
Vissir þú að ...
skipulögð sjálfboðastörf geta verið hluti af námi á unglinga-, framhaldsskóla- og háskólastigi? Rauði krossinn á Íslandi tekur reglulega á móti nemendum í sjálfboðastörf í tengslum við nám þeirra.
Allar fyrirspurnir vegna sjálfboðastarfa í tengslum við nám, Erasmus-verkefni og starfsnám má senda á central@redcross.is
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.