Innanlandsstarf
Frábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
13. september 2024
Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.

„Það er ótrúlega góð tilfinning og mikill léttir að vera komin í fullan gang. Það hefur rosalega mikil vinna átt sér stað og við erum stolt af þessu verkefni og að geta loksins boðið upp á öruggt rými til að nota í,“ segir Eva Dögg Þórsdóttir, verkefnafulltrúi í neyslurýminu. „Í byrjun komu fleiri til að nýta sér rýmið en við bjuggumst við. Til þessa hafa 68 notendur komið til okkar í 263 heimsóknum.“

Mikil ánægja hjá notendum
„Aðstaðan er komin í gott horf. Það er allur lífsnauðsynlegur búnaður til staðar í rýminu, en það vantar reyndar ennþá stálborð sem verða sett upp. Svo er náttúrulega viðbúið að það verði alls konar litlir hlutir sem kemur í ljós að væri gott að hafa og þá græjum við það bara,“ segir Eva. „Við erum hins vegar bara rétt að byrja að ná almennilega til einstaklinga sem nota vímuefni í æð.
Allir sem hafa komið eru ótrúlega þakklátir fyrir þessa þjónustu og það er búið að vera mjög gaman að heyra frá þeim hvað þau eru ánægð með að þetta úrræði sé loksins komið,“ útskýrir Eva. „Fólk talar líka um hvað þetta sé hrein og notaleg aðstaða og hvað starfsfólkið sé gott. Við höfum upplifað mikið þakklæti og létti hjá notendum og þau segja okkur að þetta sé einfaldlega frábært.“

Neyslurýmið er opið alla virka daga milli 10-16 og á föstudögum milli 10-14, en þessi opnunartími kemur til móts við opnunartíma gistiskýlanna. Hugmyndin er að þetta úrræði sé í boði þegar skjólstæðingahópurinn hefur ekki í önnur hús að venda.
Frábært starfsfólk og öflugt samstarf
„Við höfum líka verið rosalega heppin með frábæra starfsmannahópinn sem okkur hefur tekist að setja saman í neyslurýminu,“ segir Eva. „Þetta er fagfólk sem kemur úr mörgum ólíkum áttum en tengjast samt öll á einhvern hátt inn í þennan málaflokk.
Við höfum líka verið í afar góðu sambandi og samstarfi við kerfin í kringum okkur og við höfum bara heyrt af og orðið vör við jákvæð viðbrögð við þjónustunni sem er við erum að bjóða upp á,“ segir Eva að lokum.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“

Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.