Innanlandsstarf
Fyrir alla sem vilja þjálfa sig í íslensku
10. janúar 2019
Verkefnið Æfingin skapar meistarann, íslenskuþjálfun fyrir fólk af erlendum uppruna hefur störf á nýju ári laugardaginn 12. janúar kl. 10-12 í húsnæði Mímis.
Verkefnið Æfingin skapar meistarann, íslenskuþjálfun fyrir fólk af erlendum uppruna hefur störf á nýju ári laugardaginn 12. janúar kl. 10-12 í húsnæði Mímis. Rauði krossinn í Kópavogi í samstarfi við Mími-símenntun fóru af stað með verkefnið vorið 2017 og þátttaka eykst með hverri önn. Sjálfboðaliðar og þátttakendur hittast einu sinni í viku og tala saman á íslensku. Tilgangur verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun og markmiðið er að þjálfa talmál og auka orðaforða. Í hverjum tíma er tekið fyrir ákveðið þema sem nýtist í daglegu lífi, eins og samgöngur, verslun, matur, húsnæðismál o.fl. Hópnum er skipt í smærri hópa þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að þjálfa sig í málinu á sínum hraða. Listasafn Íslands hefur einnig tekið þátt með því að bjóða þátttakendum á sýningar og á þann hátt öðlast þeir innsýn í sögu landsins og læra íslensku í leiðinni. Allir eru velkomnir að taka þátt og við hlökkum til að vera með ykkur á nýju ári.
Æfingin skapar meistarann fer fram alla laugardaga kl. 10-12. Athugið að æskilegt er að vera með grunn í íslensku.
Hvar: Mímir Símenntun, Höfðabakki 9, 110 Reykjavík.
Hvenær: Alla laugardaga kl. 10-12.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.

Máluðu myndir og seldu vegfarendum
Almennar fréttir 12. september 2025Frænkurnar Theodóra Guðrún Kaaber og Þórunn Björk Kaaber afhentu Rauða krossinum nýverið fé sem þær höfðu safnað fyrir fólk á Gaza og önnur verkefni félagsins.

Þekkir kasmírull úr margra metra fjarlægð
Innanlandsstarf 11. september 2025Staflar af fötum og öðrum textíl. Tonn á tonn ofan. Mörg slík á dag. Sumar flíkurnar handónýtar. Aðrar lélegar. „En inn á milli leynast oft gullmolar,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fatasöfnunar hjá Rauða krossinum.