Innanlandsstarf
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
23. júlí 2025
„Ég sá þörfina,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir um ástæður þess að hún ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Ég hef einnig alla tíð haft þá þörf að vilja gera gagn, gera gagn fyrir samfélagið mitt og einstaklinga.“

„Það kom mér á óvart hversu hlýtt það er í hjartað að klæðast Rauða kross peysunni,“ segir sjálfboðaliðinn Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir. „Þá er maður kominn í ákveðið hlutverk og mér finnst peysan og merki Rauða krossins vernda mig og gefa mér ákveðinn styrk. Þetta kann að hljóma skrítið en er satt.“
Svanhvít Sjöfn er frá Patreksfirði og er í hópi um 2.300 virkra sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi. Hún hefur tengst félaginu í meira en áratug eða frá árinu 2012 er hún var „plötuð“ í stjórn Stykkishólmsdeildar félagsins. „Þar með var Rauða kross ævintýri mitt hafið.“ Hún gegndi formennsku í deildinni í eitt ár, flutti svo tímabundið til höfuðborgarsvæðisins en er hún flutti á heimaslóðir á ný leið ekki á löngu þar til hún var aftur komin í stjórn, ýmist sem ritari eða formaður. „Stjórnarseta er líka sjálfboðaliðastarf,“ minnir hún á en hún hefur einnig boðið fram krafta sína í fjöldahjálp og viðbragðshópi Rauða krossins en slíka hópa er að finna um allt land.
Svanhvít er deildarstjóri framhaldsdeildar Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði en starfaði áður lengi í félagsþjónustunni og kann því vel að vinna með fólki.
En hvers vegna ákvað hún að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum?
„Ég held hreinlega að það hafi fyrst komið til vegna þess að ég sá þörfina – að það vantaði aukinn mannskap í fjöldahjálp,“ svarar hún. „Ég sá það í störfum mínum í deildarstjórn Rauða krossins hversu mikilvægt það er að hafa góðan hóp af fólki sem er tilbúið að bregðast við þegar neyðin bankar upp á.“
En fleira kemur til. „Ég hef einnig alla tíð haft þá þörf að vilja gera gagn, gera gagn fyrir samfélagið mitt og einstaklinga – og það er hvergi betri staður til að gera það en hjá Rauða krossinum, með mannúð að leiðarljósi.“
Frá því að hún hóf sjálfboðaliðastörf hefur hún tekið ýmis námskeið hjá Rauða krossinum sem bjóðast sjálfboðaliðum félagsins, þeim að kostnaðarlausu. Þannig hefur hún setið námskeið um neyðarvarnir, undirbúningsnámskeið fyrir sjálfboðaliða í viðbragðshóp og skyndihjálparnámskeið. „Ég hafði einnig tekið sálræna fyrstu hjálp í námi mínu við félagsráðgjöf,“ bætir hún við.

Þegar áföll dynja yfir
Sem sjálfboðaliði í fjöldahjálp á Vestfjörðum þarf Svanhvít að vera viðbúin því að opna fjöldahjálparstöð í samstarfi við aðra sjálfboðaliða. „Á mínu svæði hefur það hingað til oftast falist í því að bregðast við ef til rýmingar vegna snjóflóðahættu kemur. Þá höfum við haft samning við sveitarfélagið um húsnæði þangað sem fólk, sem ekki kemst að hjá fjölskyldu eða vinum, getur komið og dvalið. Við þurfum að halda skrá yfir það fólk sem kemur og fer, veita því upplýsingar, tryggja að fólkið fái mat, nauðsynleg lyf og sinna grunnþörfum þess – en ekki síst að vera til staðar og sýna stuðning.“
Sem sjálfboðaliði í viðbragðshópi hefur hún verið kölluð til þegar erfið áföll dynja yfir einstaklinga eða samfélög. Þá meta sjálfboðaliðarnir, í samstarfi við bakvakt Rauða krossins og neyðarvarnafulltrúa, þörfina fyrir viðbragð. Það getur falist í að hitta og veita aðstandendum sálrænan stuðning þegar skyndileg dauðsföll verða, samstarfsfólki stuðning vegna slysa á vinnustað eða í því að veita stuðning vegna annarra samfélagslegra áfalla.
Fékk góðan undirbúning og þjálfun
Hún segist „heldur betur“ mæla með því að fólk gerist sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Fjölmargir vilji koma til aðstoðar þegar eitthvað bjáti á, sérstaklega í minni samfélögum, en hjá Rauða krossinum fái fólk þann undirbúning og þjálfun sem þarf til að stíga inn í aðstæður.
„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít spurð um hvað sjálfboðaliðastörfin gefi henni. „Og eins og rannsóknir sýna, þá getur það aukið hamingju einstaklinga að sinna sjálfboðaliðastörfum og gera góðverk. Þrátt fyrir að aðstæðurnar séu oft krefjandi og erfiðar, þá gefur það manni sterkan tilgang. Fyrir mitt leyti er það góð tilfinning að finna að ég geti komið öðru fólki til aðstoðar í erfiðum aðstæðum.“
Hér getur þú lesið um verkefni Rauða krossins, séð hvar þörf á sjálfboðaliðum er mest og sótt um að gerast sjálfboðaliði.


Vissir þú að ...
það er ólíkt milli verkefna hversu mikinn tíma sjálfboðaliðar eru beðnir um að leggja fram og í hversu langan tíma þeir þurfa að skuldbinda sig.
Í sumum verkefnum verja sjálfboðaliðar einni klukkustund vikulega og í öðrum verkefnum t.d. 3 klukkustundum tvisvar sinnum í mánuði. Stundum eru sjálfboðaliðar beðnir um að skuldbinda sig til 6 eða 12 mánaða en í öðrum tilfellum í mun skemmri tíma.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.