Innanlandsstarf
Hópastarf sem valdeflir hinsegin fólk á flótta
08. september 2025
Alþjóðsamband Rauða krossins segir hópastarf á vegum Rauða krossins á Íslandi fyrir hinsegin fólk á flótta búa til einstakt umhverfi „þar sem þátttakendur upplifa viðurkenningu, virði og valdeflast“. Þátttakendur lýsa hópnum sem öruggu rými til að deila reynslu af áföllum og mismunun.
Hópastarf fyrir hinsegin fólk á flótta, sem Rauði krossinn á Íslandi stendur fyrir, hefur skilað góðum árangri fyrir þátttakendur samkvæmt niðurstöðu könnunar sem Alþjóðasamband Rauða krossins (IFRC) gerði á starfinu og birt var í sumar. Sambandið segir að vissulega séu nokkrar áskoranir fyrir hendi, m.a. sú að fólk utan höfuðborgarsvæðisins eigi erfitt með að taka þátt. „Starfið býr til rými þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd geta endurheimt hluta af sjálfsmynd sinni sem gæti að öðrum kosti fallið í skuggann af þeim erfiðleikum sem hljótast af því að sækja um vernd,“ segir m.a. í samantektarskýrslu IFRC.
Sambandið segir að hópastarfið leiki mikilvægt hlutverk í að styðja við hinsegin fólk sem flúið hefur til Íslands. Það sé gert með því að búa til öruggt rými þar sem þau geta tengst, deilt reynslu sinni og fengið sálrænan stuðning. „Starfið býr til einstakt umhverfi þar sem þátttakendur upplifa viðurkenningu, virði og valdeflast,“ segir enn fremur í skýrslu Alþjóðasambandsins.
Stutt við sjálfsmynd fólks
Að flýja heimaland sitt í leit að skjóli getur reynt verulega á. Ferlið sem fer í gang þegar sótt er um vernd í öðru landi býður þeirri hættu heim að fólk einbeiti sér að fáu öðru en því að vera manneskja á flótta. „Þetta getur þýtt að aðrir hlutar sjálfsmyndar þess, svo sem að vera hinsegin, falla í skuggann. Hópurinn hjálpar til við að draga úr þessu með því að fagna og styðja við heildstæða sjálfsmynd hvers og eins, að viðurkenna fólk fyrir að vera það sjálft en ekki aðeins líta á það sem umsækjendur um vernd,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Þátttakendur í hópnum lýsa starfinu ítrekað sem mikilvægasta félagsstarfi sínu í hverri viku. Segja þau hópinn bjóða upp á öruggt rými til að deila reynslu, þar á meðal af áföllum og mismunun, sem hjálpi til við að draga úr einangrun.
Vikulegir fundir
Hópurinn byggir í grunninn á tryggð og trúnaði við þá sem taka þátt í starfinu sem leitt er af sjálfboðaliðum Rauða krossins, sérþjálfuðum í málefnum hinsegin fólks á flótta. Vikulega er boðið upp á viðburði, jafningastuðning og ráðgjöf. Milli 7 og 12 einstaklingar hafa hingað til tekið þátt í hvert skipti. Flest er fólkið að bíða eftir niðurstöðu umsóknar um alþjóðlega vernd en einhverjir hafa þegar fengið vernd. Þá eru líka dæmi um að fólk sem ekki fékk vernd og hvarf til annarra landa vilji áfram tilheyra hópnum og leita þar stuðnings í gegnum netið.
Hópurinn gegnir að mati IFRC mikilvægu hlutverki í því að draga úr einangrun hinsegin fólks á meðan það bíður úrlausnar umsókna sinna um vernd hér á landi, og í að bæta andlega líðan þess. „Þátttakendur segja að andleg heilsa þeirra hafi batnað því þeim sé boðið inn í öruggt umhverfi þar sem komið er fram við það af virðingu.“
Áhugasöm um frekari upplýsingar um hópinn, t.d. þau sem vilja taka þátt, geta haft samband með því að senda póst á netfangið asylum@redcross.is
Viltu gerast sjálfboðaliði í hópnum? Þá getur þú sótt um hér á íslensku og hér á ensku.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.