Innanlandsstarf
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
27. október 2025
„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
„Það margborgar sig að læra skyndihjálp og það margborgar sig fyrir fyrirtæki að bjóða starfsfólki sínu upp á skyndihjálparnámskeið,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur í áratugi boðið upp á faglega og viðurkennda skyndihjálparþjálfun fyrir einstaklinga og hópa, m.a. vinnustaði.
„Við eyðum um þriðjungi ævinnar í vinnunni og töluverðar líkur eru á að á þeim tíma skapist aðstæður þar sem beita þarf skyndihjálp,“ segir Hildur. „Og við hjá Rauða krossinum viljum að á hverjum einasta vinnustað á Íslandi verði sem flestir klárir í það verkefni.“
Yfir 220 vinnustaðir hafa á síðustu þremur árum keypt skyndihjálparnámskeið af Rauða krossinum og á þeim hafa samanlagt um 9.600 starfsmenn fengið þjálfun í að bregðast við óvæntum aðstæðum og lært réttu handtökin við að bjarga mannslífum. „Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur sem hvetur nú fleiri fyrirtæki og stofnanir til að bætast í hópinn og auka þar með öryggi allra starfsmanna sinna. Hvert námskeið er sérsniðið að hverjum vinnustað svo að þótt grunnurinn sé hinn sami eru áherslur breytilegar eftir starfsemi fyrirtækjanna.
Gott hópefli
Kennslan fer fram undir leiðsögn sérþjálfaðra leiðbeinenda Rauða krossins og á námskeiðunum beita þeir fjölbreyttum kennsluaðferðum. Verklegi þátturinn er fyrirferðarmestur og allir þátttakendur fá t.d. góða þjálfun í hjartahnoði og að nota hjartastuðtæki.
„Skyndihjálparnámskeiðin okkar eru valdeflandi og fræðandi en þau eru líka full af fjöri og skemmtileg,“ segir Hildur. „Þau ganga út á teymisvinnu og eru í raun frábært hópefli fyrir starfsmannahópinn.“
Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum. „Það kemur öllum að gagni í lífinu, hvort sem er ef bráð veikindi eða slys eiga sér stað inni á vinnustaðnum, heimilinu, uppi í sumarbústað eða úti á leikvelli,“ segir Hildur. „En það hefur líka sýnt sig að skyndihjálparþekking felur í sér forvörn.“ Þegar fólk verði meðvitaðra um sig og sitt umhverfi stuðli það að fækkun slysa. Og þegar fólk kunni skyndihjálp grípi það fyrr inn í þegar óvænt slys eða bráð veikindi eiga sér stað. Það geti skipt sköpum um batahorfur og þar með fjarveru frá vinnu.
Sniðin að þörfum ólíkra vinnustaða
Rauði krossinn býður upp á vönduð og hagnýt námskeið í skyndihjálp, sem sniðin eru að þörfum hvers starfsmannahóps fyrir sig, bæði hvað varðar lengd og efnistök. Kennt er á íslensku, ensku eða pólsku.
Á námskeiðunum er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð í neyð og einfaldar aðferðir skyndihjálpar. Allt fræðsluefnið er gefið út af Rauða krossinum. Boðið er upp á margvísleg námskeið fyrir hópa og fyrirtæki sem þú getur kynnt þér nánar hér.
„Við hvetjum ábyrg fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök um land allt til að hafa samband við okkur og í sameiningu finnum við út hvaða námskeið henta,“ segir Hildur. „Svo mætum við til ykkar og í sameiningu aukum við öryggi okkar allra. Rétt viðbrögð á réttum tíma geta bjargað lífi.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.