Innanlandsstarf
Listsköpun, leikur og lærdómur
15. júlí 2025
„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Festival-stemning ríkti í höfuðstöðvum Rauða krossins í Víkurhvarfi nýverið er tugir fólks sem neyðst hefur til að flýja heimaland sitt Úkraínu komu saman til leiks og fræðslu. Fólk á öllum aldri, börn jafnt sem fullorðnir, tók þátt. Hátíðin stóð í tvo daga og gátu þátttakendur valið úr fjölda viðburða þar sem áhersla var lögð á stuðning og fræðslu ýmist í gegnum leik, listsköpun, fræðsluerindi og samræður.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins héldu utan um samkomuna sem markar lokakafla Wellbeing4U, átaksverkefnis Rauða krossins á Íslandi, sem er hluti af átaksverkefni víða í Evrópu, í sálfélagslegum stuðningi við Úkraínumenn. Verkefnið hefur staðið í þrjú ár og er styrkt af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins, EU4Health.

„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um hátíðina í Víkurhvarfinu. Um var að ræða nokkurs konar uppskeruhátíð verkefnisins og tóku um 60 manns þátt í mörgum mismunandi viðburðum. Að sögn Yönu hefur verkefnið reynst Úkraínumönnum á Íslandi vel til að tengjast, miðla af reynslu og styðja hver annan í nýju landi.

Markmið Wellbeing4U er að búa til vettvang fyrir sálfélagslega fræðslu og jafningastuðning fyrir flóttafólk. Þannig hafi meira en tíu sjálfboðaliðar frá Úkraínu og Litháen tekið þátt og boðið upp á margvíslega fræðslu í þeim tilgangi að auka seiglu og andlega vellíðan.

Þátttakendur á hátíðinni í Víkurhvarfinu hafa sumir búið í nokkur ár á Íslandi en aðrir aðeins í fáa mánuði. „Við vildum með hátíðinni búa til vettvang til að halda áfram að efla tengsl milli Úkraínumanna á Íslandi sem aftur mun hjálpa þeim að taka virkan þátt í íslensku samfélagi,“ segir Yana.

Átaksverkefninu Wellbeing4U lýkur brátt en Yana segir von sína og annarra sem komið hafa að verkefninu þá að inntak þess haldi flugi og þau tengsl fólksins sem skapast hafa haldi áfram að styrkjast. Það auki líkur allra á því að ná að blómstra.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“