Innanlandsstarf
Neyðarvarnaþing Rauða krossins fór fram um helgina
29. mars 2023
Rauði krossinn hélt neyðarvarnaþing á laugardag, þar sem fulltrúar allra deilda komu saman til að meta getu innviða, Rauða krossins og samfélagsins í heild til að mæta alls kyns áföllum og hamförum.

Neyðarvarnaþing Rauða krossins var haldið á laugardag á Reykjum í Hrútafirði. Þar komu saman sjálfboðaliðar frá öllum deildum landsins til að fara yfir styrkleika og veikleika á ólíkum svæðum landsins, ráða fram úr því hvað má betur fara þegar kemur að viðnámsþrótti innviða og samfélagsins í heild, forgangsraða þeim verkefnum sem þarf að ráðast í og bæta og efla samstarf deilda.
Dagskráin hófst á stuttum tölum frá Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins, og Jóni Brynjari Birgissyni, sviðsstjóra innanlandssviðs. Því næst tók Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar hjá Almannavörnum, við og ræddi um endurreisn samfélaga í kjölfar áfalla og hvað felst í henni. Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, tók svo við og fræddi gesti þingsins um kerfisbundna áfallaþolsgreiningu og hvernig hana má nýta til að bæta undirbúning samfélaga til að takast á við áföll.

Að þessu loknu fór fram hópavinna þar sem fulltrúar ólíkra landsvæða greindu aðstæður á sínu heimasvæði, hverjar eru helstu hætturnar og hvaða viðbúnaður er til staðar. Þar kom fram að ýmsar deildir hafa þörf fyrir fleiri sjálfboðaliða til að geta brugðist betur við ef neyðarástand skapast.
Misjafnar áskoranir milli landshluta
„Það er afar mikilvægt að efla neyðarvarnir á landsvísu og að fólk sem er að sinna verkefnum Rauða krossins hittist. Þar lærum við af hvort öðru og þéttum hópinn fyrir áframhaldandi starf Rauða krossins,“ segir Aðalheiður. „Það var heilmikil vinna unnin á þinginu sem verður svo tekin saman og greint verður betur með hvaða hætti og hvar við þurfum að bæta við fræðslu, búnaði og svo framvegis. Það eru misjafnar áskoranir í neyðarvörnum milli landshluta og nauðsynlegt að endurmeta þann viðbúnað sem Rauði krossinn býr yfir hverju sinni.

Þingið heppnaðist mjög vel og er þetta upphaf á vinnu við áfallaþolsgreiningu sem mun halda áfram á landsvísu. Rauði krossinn býr yfir frábærum sjálfboðaliðum um land allt sem eru tilbúin að bregast við hættu og áskorunum sem gætu komið upp,“ bætir Aðalheiður við.
Þetta er þriðja neyðarvarnaþing Rauði krossins, en það fyrsta fór fram árið 2018. Þingið er mikilvægur þáttur í að samhæfa aðgerðir félagsins á landsvísu ásamt því að viðhalda og auka þekkingu og kunnáttu þeirra sem sinna neyðarvörnum á vegum Rauða krossins, en félagið er hluti af Almannavörnum og hefur víðtækt hlutverk þegar neyðarástand skapast.
Rauði krossinn þakkar þeim sjálfboðaliðum sem vörðu deginum með okkur kærlega fyrir þátttökuna.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.